Keðjusagarmaðurinn handtekinn

Lögregla birti þessar myndir af Franz Wrousis áður en hann …
Lögregla birti þessar myndir af Franz Wrousis áður en hann var handtekinn. AFP

Franz Wrousis, sem særði fimm manns í árás með keðjusög í svissneska bænum Schaffhausen í gær var í dag handtekinn í bænum Thalwil um 60 km frá árásarstaðnum.

Svissneska lögreglan greindi frá þessu nú í kvöld, en gefin hafði verið út alþjóðleg handtökuskipun á hendur Wrousis. Tóku hundrað þýskir og svissneskir lögreglumenn þátt í leitinni, enda var hann talinn hættulegur og taldi lögregla að hann væri jafnvel enn með keðjusögina á sér.

Wrousis hafði áður komist í kast við lögreglu vegna brota á vopnalögum, en í gær réðst hann inn í skrifstofu tryggingafélags og særði fimm með keðjusög, þar af tvo alvarlega. Fréttir voru sagðar af því í dag að sá sem hefði slasast mest væri úr lífshættu.

BBC segir Wrousis hafa búið úti í skógi í nágrenni árásarstaðarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert