Mannskæð árás þrátt fyrir vopnahlé

Að minnsta kosti fjögur börn létust í loftárás í borginni …
Að minnsta kosti fjögur börn létust í loftárás í borginni Arbin. AFP

Að minnsta kosti átta borgarar létu lífið, þar af fjögur börn, í loftárás Sýr­lands­hers á Ghuouta sem er svæði utan við höfuðborg­ina Dam­askus í Sýrlandi þrátt fyrir að vopna­hléi hafi verið lýst yfir síðastliðinn laugardag. Um 30 manns eru særðir eftir árásina. 

Árásin var gerð á borgina Arbin í austurhluta Ghouta í gærkvöld. Stjórn­ar­her Bash­ar al-Assad Sýr­lands­for­seta hef­ur setið um Ghouta í fjög­ur ár og ít­rekað gert þar árás­ir. 

Sýr­lands­her hefur ekki staðið við vopnahléið því að minnsta kosti sex árásir voru gerðar á sunnudaginn, bæði úr lofti og á jörðu, víða á svæðinu. 

Herþotur Sýrlandshers eða bandamanna þeirra, Rússar, bera ábyrgð á árásunum, að sögn Rami Abdel Rahman, talsmanns mannréttindasamtaka í Sýrlandi. Þetta er í annað sinn sem umsamið vopnahlé á þessu svæði er brotið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert