Trump sakar Sessions um veiklyndi

Donald Trump hefur sagst sjá eftir því að hafa skipað …
Donald Trump hefur sagst sjá eftir því að hafa skipað Jeff Session í embætti dómsmálaráðherra. Í gær greindu fjölmiðlar vestanhafs frá því að forsetinn væri að íhuga að skipta honum út fyrir Rudy Giuliani. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur enn og aftur ráðist gegn dómsmálaráðherra sínum Jeff Sessions og m.a. sakað hann um að hafa tekið „veika“ afstöðu gagnvart meintum glæpum Hillary Clinton.

Fregnir herma að forsetinn vinni nú að því ásamt ráðgjöfum sínum að láta Sessions fjúka.

Trump hefur áður látið í ljós óánægju sína með ákvörðun dómsmálaráðherrans um að segja sig frá rannsókn alríkislögreglunnar af meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum árið 2016.

Auk þess að saka Sessions um veiklyndi hvað varðar Clinton varpaði hann í dag fram þeirri spurningu á Twitter af hverju ráðherrann hefði ekki tekið til rannsóknar fregnir frá því fyrr á þessu ári um að ráðamenn í Úkraínu hefðu freistað þess að hafa áhrif á úrslit forsetakosninganna Clinton í hag.


Samkvæmt Washington Post ku Trump að hafa spurt einn ráðgjafa sinna hvernig íhaldssamir fjölmiðlar vestanhafs myndu taka því ef hann léti Sessions víkja.

Anthony Scaramucci, nýráðinn fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, gerði lítið til að draga úr vangaveltum um mögulegt brotthvarf Sessions í útvarpsviðtali í dag.

„Ef það er svona mikil spenna í opinberu sambandi, þá hefur þú líklega rétt fyrir þér,“ sagði Scaramucci þegar útvarpsmaðurinn Hugh Hewitt staðhæfði að það væri frekar augljóst að Trump vildi losna við Sessions.

Dómsmálaráðherrann var í Hvíta húsinu í gær en átti ekki fund með Trump. Hann ku hafa óskað eftir fundi með forsetanum en Scaramucci sagði áhugann ekki gagnkvæman.

Maggie Haberman, fréttaritari New York Times í Hvíta húsinu, sagðist hafa spurt tvo nána samstarfsmenn Trumps að því hvers vegna hann væri að kvelja Sessions í stað þess að láta hann fara. „Af því að hann getur það,“ var svarið sem hún fékk.

BBC sagði frá.

Síðustu daga hefur Trump beint spjótum sínum gegn Sessions en …
Síðustu daga hefur Trump beint spjótum sínum gegn Sessions en kunnugir segja Robert Mueller hið raunverulega skotmark. Mueller fer fyrir Rússlands-rannsókninni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert