Vilja að drengurinn fái að deyja heima

Chris Gard og Connie Yates, foreldrar Charlie Gard, tárvot fyrir …
Chris Gard og Connie Yates, foreldrar Charlie Gard, tárvot fyrir utan yfirréttinn í Bretlandi í gær. AFP

For­eldr­ar hins ell­efu mánaða gamla Charlie Gard sem þjá­ist af ban­væn­um hrörn­un­ar­sjúk­dómi hafa krafist þess að fá að fara með son sinn heim til að deyja. Dómsmál sem þau hafa staðið í síðustu mánuði lauk í gær þegar þau drógu til baka kröfur sínar um að fá að ferðast með drenginn til Bandaríkjanna til tilraunarmeðferðar.

Sögðu læknar foreldrunum að það væri um seinan að bjarga drengnum. Lögfræðingur þeirra Chris Gard og Connie Ya­tes sagði fyrir dómi í gær að „tím­inn hefði runnið út“. Sögðu foreldrarnir ákvörðunina vera þá erfiðustu sem þau hefðu tekið, en vegna niðurstaðna úr rannsóknum myndu þau nú draga kröfur sínar til baka og leyfa læknum að taka öndunarvél sonar síns úr sambandi.

Sky News greinir frá.

Yates sneri aftur í yfirrétt í Bretlandi í dag þar sem hún fór fram á að fá að fara heim með son sinn, og leyfa honum að deyja þar. Lögfræðingur foreldranna hefur sagt Great Ormond Street-spítalann þar sem Charlie hefur dvalið, hindra foreldrana frá því að taka drenginn heim.

Dómarinn í málinu sagði ástæður þess vera þær að öndunarvélin kæmist ekki inn um dyrnar á heimili parsins. Forsvarsmenn spítalans segja Gard og Yates ekki vera tilbúin til málamiðlana.

Sagði enga von vera fyrir drenginn

For­eldr­arnir mættu fyr­ir yf­ir­rétt í Bretlandi í gær, þar sem til stóð að leggja fram vitn­is­b­urð frá banda­rísk­um tauga­lækni sem heim­sótti Charlie á Great Ormond Street-spít­al­ann á dög­un­um. Niðurstaða lækn­is­ins var ljós á föstu­dag, en hann sagði að eng­in von væri fyr­ir dreng­inn. Ákváðu for­eldr­arn­ir því að draga til baka kröf­ur sín­ar, og leyfa syni sín­um að deyja.

For­eldr­arn­ir hafa bar­ist fyr­ir því að dreng­ur­inn fái að lifa, en vegna sjúk­dóms hans get­ur hann ekki opnað aug­un, borðað eða hreyft sig svo neinu nemi sjálf­ur. 

Lækn­ar á spít­al­an­um hafa farið fram á að taka önd­un­ar­vél sem held­ur drengn­um á lífi úr sam­bandi, og hafa dóm­ar­ar á öll­um dóm­stig­um í Bretlandi og fyr­ir Mann­rétt­inda­dóm­stóli Evr­ópu verið sam­mála því.

„Þetta er það erfiðasta sem við höf­um gert. Eft­ir nýj­ustu niður­stöður höf­um við ákveðið að leyfa syni okk­ar að deyja,“ sagði Ya­tes fyr­ir dómi í gær. Þá gagn­rýndi hún ferlið síðustu mánuði og sagði mikl­um tíma hafa verið sóað. Ef hann hefði farið fyrr í meðferðina hefði hann átt mögu­leika.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert