Vilja fella aldurstakmarkanir úr gildi

Ungir Nígeríumenn vilja að aldurstakmarkanir í kosningum verði felldar úr …
Ungir Nígeríumenn vilja að aldurstakmarkanir í kosningum verði felldar úr stjórnarskránni. AFP

Um fimm hundruð Nígeríumenn gengu að þinghúsinu í Abuja í dag til að krefjast stjórnarskrárbreytinga. Vilja þeir að aldurstakmarkanir vegna kosninga í hin ýmsu embætti verði felldar úr gildi.

Samkvæmt stjórnarskránni verður forsetinn að vera að minnsta kosti 40 ára en öldungadeildarþingmenn og ríkisstjórar 35 ára. Á sama tíma hefur nígeríska þjóðin yngst; 55% kjósenda eru í aldurshópnum 18-35 ára.

Mótmælendur hugðust dvelja við þinghúsið þar til þingmenn gengu til atkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingarnar. Sú tillaga sem nú liggur fyrir nær hins vegar ekki jafnlangt og mótmælendur vilja, heldur gerir hún ráð fyrir að aldurskrafan fyrir forsetaembættið verði lækkuð í 35 ár og fyrir ríkisstjóraembætti í 30 ár.

Þá verða 25 ára og eldri kjörgengir í kosningum fyrir fulltrúadeildina og ríkisþingin.

Forseti Nígeríu, Muhammadu Buhari, er 74 ára og hefur dvalið erlendis vegna veikinda frá 7. maí sl. Aldnir höfðingjar eru víðar við stjórnvölinn í Afríku, til dæmis í Zimbabwe, þar sem Robert Mugabe ræður lögum og lofum 93 ára gamall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert