Fundu lækni svo Charlie geti dáið heima

Charlie Gard. Foreldrar hans vilja nú fá að dvelja með …
Charlie Gard. Foreldrar hans vilja nú fá að dvelja með hann heima þá daga sem hann á eftir ólifaða.

Foreldrar hins ell­efu mánaða gamla Charlie Gard, sem þjá­ist af ban­væn­um hrörn­un­ar­sjúk­dómi, hafa nú fundið lækni sem er reiðubúinn að líta til með Charlie svo þau geti eytt tíma með honum fjarri spítalanum þá daga sem hann á ólifaða.

Charlie hefur verið viðfangsefni biturrar lagadeilu undanfarna mánuði, sem lauk í gær er foreldrar hans drógu til baka kröf­ur sín­ar um að fá að ferðast með dreng­inn til Banda­ríkj­anna til til­raun­ar­meðferðar.

Málið hefur vakið mikla athygli og heitar deilur um það hverjir hafi valdið til að ákveða örlög barns.

Foreldrar Charlies, þau  Connie Yates og Chris Gard, hafa fallist á að leyfa honum að deyja en vilja geta eytt síðustu dögunum með honum heima áður en hann er tekinn úr öndunarvélinni. Yfirmenn Great Ormond Street-barnaspítalans sögðu í gær að slíkt væri ekki mögulegt af praktískum ástæðum.

Við málflutning fyrir dómstólum í morgun greindi lögfræðingur foreldranna hins vegar frá því að þau hefðu fundið lækni sem væri tilbúinn að annast Charlie heima eða á líknardeild. Ekki var ljóst af orðum hans hvor kosturinn væri æskilegri að mati foreldranna.

Þá væru foreldrar Charlies komnir í samband við birgja öndunarvéla sem geti komið slíkri vél til þeirra á innan við sólarhring.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert