Gekk berserksgang og skemmdi fiðlusafn fyrrverandi

Konan braust inn í íbúð fyrrverandi eiginmanns síns og braut …
Konan braust inn í íbúð fyrrverandi eiginmanns síns og braut 54 fiðlur úr safni hans auk 70 fiðluboga. mbl.is/Ragnar Axelsson

Japönsk kona hefur verið handtekin fyrir að eyðileggja fiðlusafn fyrrverandi eiginmanns síns. Safnið er virði tæpra 106 milljóna japanskra jena eða um 99 milljóna íslenskra króna.

Atvikið átti sér stað í miðjum skilnaði þeirra hjóna árið 2014 en konan var ekki handtekin fyrr en nú. Að sögn lögreglu er konan grunuð um að hafa brotist inn í íbúð mannsins í borginni Nagoya og skemmt 54 fiðlur auk 70 fiðluboga. Þetta kemur fram í frétt BBC.

Talið er að fyrrverandi eiginmaður hennar hafi bæði smíðað og safnað fiðlum. Japanskir fréttamiðlar greindu frá því að dýrmætasta fiðlan hefði verið gerð á Ítalíu og verið virði 50 milljóna jena eða um 47 milljóna íslenskra króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert