Táningsstúlka trylltist í verslunarmiðstöð

Árásin átti sér stað í verslunarmiðstöðinni Sørlandssenteret í Kristiansand.
Árásin átti sér stað í verslunarmiðstöðinni Sørlandssenteret í Kristiansand. Google Maps

Lögreglunni í Kristiansand í Suður-Noregi barst tilkynning klukkan 17:33 í dag (15:33 að íslenskum tíma) um að tveir gestir verslunarmiðstöðvarinnar Sørlandssenteret þar í bænum lægju í blóði sínu í matvöruversluninni Coop eftir að stúlka með hníf hljóp öskrandi um verslunarmiðstöðina og réðst á allt sem fyrir varð.

Audun Eide, vettvangsstjóri hjá lögregluumdæmi Agder, staðfestir í samtali við norska dagblaðið VG að lögreglan hafi handtekið táningsstúlku á staðnum og fært hana undir læknishendur eftir handtökuna. Hann staðfestir einnig að hin handtekna hafi komið við sögu lögreglu áður.

„Hljóp öskrandi á móti okkur“

Pari með þriggja ára barn, sem var að koma út úr lyftu í verslunarmiðstöðinni, varð ekki um sel við þá sjón sem blasti við þegar lyftudyrnar opnuðust: „Skyndilega kom kona með hníf æðandi á móti okkur, öskrandi og grenjandi,“ lýsti maðurinn, „hún hljóp svo að rúllustiganum og starfsfólk frá Coop kom hlaupandi á eftir,“ sagði hann að auki en fjölskyldan er í fríi í Kristiansand og var nýkomin úr dýragarðinum þegar ósköpin dundu yfir.

Annað vitni, kona sem starfar í miðstöðinni, segir hnífamanneskjuna hafa verið handtekna beint fyrir framan búðina sem vitnið vinnur í. „Við heyrðum fyrst kallað að það vantaði lækni í Coop, svo var öllum á annarri hæð skipað að koma sér niður sem fyrst,“ sagði konan og lýsti því svo að manneskja hafi staðið fyrir utan búðina og sveiflað stórum kjöthníf í kringum sig. „Þetta var ógeðslegt, mig langar ekki að vera í vinnunni,“ sagði hún að endingu.

Um hálftími leið frá atburðunum í Coop þar til stúlkan var handtekin og hafði fjöldi fólks þá hlaupið inn í verslanir og lokað sig þar inn. Tæknideild lögreglu er nú á staðnum þar sem fólkið var stungið en ekki er vitað um ástand þess að svo búnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert