Mikilvægi kynlífs minnkar ekki með aldri

Ljósmynd/Thinkstock

Portúgalskir dómstólar gerðust sekir um kynferðislega mismunun í ákvörðun sinni í skaðabótamáli, þar sem þeir komust að þeirri niðurstöðu að kynlíf væri ekki jafn mikilvægt eldri konum og yngri.

Þetta kemur fram í úrskurði Mannréttindadómstóls Evrópu en stefnandinn var hin 50 ára Maria Morais, tveggja barna móðir, sem sakaði lækna um að hafa klúðrað aðgerð á portúgölskum spítala árið 1995.

Mistökin urðu til þess að Morais gat ekki stundað venjulegt kynlíf.

Hún vann upphaflega skaðabótamálið sem hún höfðaði gegn spítalanum, vegna þess líkamlega og andlega tolls sem mistökin tóku, en spítalinn hafði betur fyrir áfrýjunardómstól árið 2013, þar sem miskabæturnar voru lækkaðar um þriðjung.

Dómarar í Lissabon réttlættu ákvörðun sína með því að vísa til þess að kynlíf væri ekki jafn mikilvægt Morais og öðrum vegna aldurs hennar. Þess má til gamans geta að dómararnir í málinu, tveir karlar og tvær konur, voru öll eldri en 50 ára.

Niðurstaðan vakti mikla athygli í Portúgal og var harðlega gagnrýnd. Einn þingmaður sagði úrskurðinn af „talíbönskum“ meiði.

Mannréttindadómstóllinn hefur nú tekið afstöðu með Morais og segir portúgölsku dómarana hafa gerst seka um fordóma og að hafa brotið gegn friðhelgi einkalífs konunnar. Hefur portúgalska ríkinu verið gert að greiða Morais 400.000 krónur í miskabætur og 300.000 krónur vegna útlagðs kostnaðar.

Í niðurstöðu Mannréttindadómstólsins segir m.a. að portúgalski dómstóllinn hafi hunsað líkamlegt og andlegt mikilvægi kynlífs fyrir konur. Þá hefði úrskurðurinn byggst á kreddum um að kynlíf væri ekki jafn mikilvægt 50 ára konu og tveggja barna móður eins og það væri yngri konum.

Þá er vísað til tveggja annarra mála sem fengu afgreiðslu í portúgalska dómskerfinu þar sem stefnendurnir voru karlmenn, en þá komust dómstólar að þeirri niðurstöðu að sú staðreynd að karlmennirnir gætu ekki stundað eðlilegt kynlíf lengur hefði haft verulega skaðvænlegar afleiðingar fyrir þá.

Í þeim málum virtist aldur ekki skipta máli.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert