102 milljóna króna hringur horfinn

Demantshringurinn sem hvarf úr þjóðminjasafni Breta og enginn veit hvar …
Demantshringurinn sem hvarf úr þjóðminjasafni Breta og enginn veit hvar er. Ljósmynd/British museum

Ekkert er vitað hvar demantshringur, sem hvarf úr British Museum fyrir sex árum, er niðurkominn. Hringurinn er talinn 750 þúsund punda virði eða rúmlega 102 milljóna króna. Lögreglunni var tilkynnt um atvikið á sínum tíma.

Hins vegar var almenningi ekki greint frá þessu fyrr en í dag, í árlegri skýrslu safnsins, þar sem umræddur hringur var afskrifaður úr safneigninni.

BBC greinir frá.  

Safnið fékk hringinn að gjöf á sínum tíma en fyrrum eigandi vildi ekki gefa nafn sitt upp.  

Samkvæmt reglum safnsins er ekki greint frá því að hlutir hafi týnst fyrr en fimm árum eftir að slíkt uppgötvast, að sögn starfsmanns safnsins. Hann sagði jafnframt að safnið hefði farið vel yfir allar öryggisráðstafanir í safninu og þær hefðu verið bættar eftir þetta atvik. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert