Krefjast upplýsinga um örlög Wallenberg

Raoul Wallenberg árið 1944.
Raoul Wallenberg árið 1944.

Fjölskylda „sænska Schindler“, ríkiserindrekans Raoul Wallenberg, hefur höfðað mál á hendur öryggisþjónstu Rússlands til að fá aðgang að gögnum hennar. Wallenberg, sem bjargaði þúsundum ungverskra gyðinga í seinni heimsstyrjöldinni, hvarf eftir að hafa verið kallaður á fund Sovétmanna í Búdapest í janúar 1945.

Að sögn lögmanns Wallenberg-fjölskyldunnar vill hún fá aðgang að öllum skjölum er varða örlög hans en hingað til hefur fjölskyldunni ýmist verið neitað um aðgang eða þeim afhent ófullkomin gögn.

„Málið snýst ekki eingöngu um möguleikann á því að endurvekja minningu markverðrar persónu. Það er einnig enn ein tilraunin til að berjast gegn óaðgenginu að skjalasafni FSB,“ sagði lögmaðurinn Ivan Pavlov í samtali við AFP.

FSB tók við af KGB.

Wallenberg var sérlegur sendifulltrúi í Ungverjalandi þegar nasistar fóru þar með völd og gaf út sænsk skilríki fyrir þúsundir gyðinga, sem gerði þeim kleift að flýja landið og yfirvofandi dauðadóm.

Þegar Sovétmenn náðu Búdapest nokkrum mánuðum áður en stríðinu lauk kölluðu þeir Wallenberg í höfuðstöðvar sínar og eftir það hefur ekkert spurst til hans. Hann var þá 32 ára.

Árið 1957 birtu yfirvöld í Sovétríkjunum skjal þar sem sagði að Wallenberg hefði verið fangelsaður í Lubyanka-fangelsinu, höfuðstöðvum KGB, þar sem hann hefði látist af völdum hjartabilunar 17. júlí 1947.

Fjölskylda hans neitar hins vegar að trúa að þetta sé satt.

Árið 2000 viðurkenndi yfirmaður rússneskrar rannsóknarnefndar að Wallenberg hefði verið skotinn og myrtur af KGB-fulltrúum í Lubyanka árið 1947, af pólitískum ástæðum. Hann gaf hins vegar ekki upp nein smáatriði né gat hann fært sönnur á mál sitt.

Yfirvöld í Svíþjóð lýstu Wallenberg formlega látinn í fyrra en óvíst er hvar hann hvílir.

Þáverandi forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, John Boehner, afhenti Ninu Lagergren, hálfsystur …
Þáverandi forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, John Boehner, afhenti Ninu Lagergren, hálfsystur Raoul Wallenberg, minningapening þingsins til heiðurs honum í júlí 2014. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert