Merkel í stað eiginkonunnar

Það var létt yfir Juncker á blaðamannafundinum með Fico.
Það var létt yfir Juncker á blaðamannafundinum með Fico. AFP

Þetta er vandamál sem margir kannast við; að gleyma að slökkva á símanum fyrir mikilvægan fund og fá síðan símtal að heiman. Í tilviki Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB, reyndist það hins vegar ekki vera eiginkonan sem var hinum megin á línunni, heldur Angela Merkel Þýskalandskanslari.

Juncker brá í brún þegar sími hans fór skyndilega að hringja á blaðamannafundi með Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu, í dag.

„Þetta er eiginkonan mín, afsakið,“ sagði Juncker og fiskaði símann upp úr jakkavasanum á meðan Fico, embættismenn ESB og blaðamenn biðu.

Eftir að hafa litið á skjáinn eitt augnablik hló forsetinn við og tilkynnti: „Nei, þetta er frú Merkel!“

Hinn 62 ára Juncker, sem þykir fremur óformlegur í fasi, hélt blaðamannafundinum ótrauður áfram eftir truflunina. Hann viðurkenndi í júní sl. að hann ætti ekki snjallsíma og heimildir herma að hann reiði sig á gamalt módel frá Nokia.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert