Vinna að framkvæmd bannsins

Transfólk safnaðist saman fyrir utan Hvíta húsið í dag.
Transfólk safnaðist saman fyrir utan Hvíta húsið í dag. AFP

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það innan Hvíta hússins hvernig ákvörðun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að banna transfólki að ganga í herinn verður framkvæmd. Talskona Hvíta hússins segir að um hernaðarákvörðun sé að ræða, og unnið sé nú að framkvæmdinni. BBC greinir frá.

Trump tilkynnti á Twitter-síðu sinni í gær að herinn mætti ekki við þeirri „fjárhagslegu byrði og truflun“ sem af transfólki myndi hljótast. Því ætti transfólk ekkert erindi í bandaríska herinn, sem verði að einbeita sér að „afgerandi sigri“.

Mannréttindasamtök um allan heim hafa gagnrýnt Trump harðlega eftir tilkynninguna, og sagt hana stórhættulega fyrir transfólk. 

Sarah Huckabee Sanders, talskona Hvíta hússins, sagði að ríkisstjórn Trumps myndi vinna samhliða Pentagon, varnarmálaráðuneyti landsins, að framkvæmd bannsins.

Ekki er enn ljóst hvaða áhrif bannið hefur á transfólk sem þegar sinnir þjónustu í hernum. Hafa nokkrir núverandi hermenn lýst yfir áhyggjum sínum af því að vera reknir úr hernum eða fá ekki að sinna þjónustu þar áfram.

Margfalt hærri kostnaður af viagra en transfólki

Bandarískir fjölmiðlar hafa margir hverjir sett spurningamerki við þau rök forsetans að fjárhagsleg byrði fylgi því að hafa transfólk í hernum. Vekur Washington Post til að mynda athygli á greiningu á útgjöldum hersins þar sem fram kemur að árlega fari um 42 milljónir dollara í stinningarlyfið viagra, sem sé margfalt hærri kostnaður en kostnaður við heilbrigðisþjónustu transfólks í hernum.

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Á blaðamannafundi í dag var Sanders spurð að því hvort transfólk sem þegar væri í hernum yrði rekið úr honum sagði hún að enn ætti eftir að ákveða hvernig framkvæmdinni yrði háttað. „Ákvörðunin er byggð á hernaðarákvörðun. Þessu er ekki ætlað að vera neitt meira en það,“ sagði hún.

Sanders sagði ákvörðunina hafa verið tekna í samráði við herinn, en varn­ar­málaráðherr­ann James Matt­is segist ekki hafa vitað af henni fyrr en Trump tilkynnti um hana á Twitter.

Sjálfstæða greiningarfyrirtækið Rand Corporations hefur áætlað að um fjögur þúsund transeinstaklingar séu í bandaríska hernum, en aðrir hafa sagt fjöldann vera nær tíu þúsund. Þá telur fyrirtækið að kostnaðurinn við kyn­leiðrétt­ing­ar­ferli trans­fólks, sem her­inn þyrfti að standa straum af, myndi nema 3-4 millj­ón­um dala ár­lega. Sam­an­lagður ár­leg­ur heil­brigðis­kostnaður hers­ins nem­ur 6 millj­örðum dala.

Mannréttindasamtök um allan heim hafa gagnrýnt Trump harðlega eftir tilkynninguna, …
Mannréttindasamtök um allan heim hafa gagnrýnt Trump harðlega eftir tilkynninguna, og sagt hana stórhættulega fyrir transfólk. AFP

Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, tilkynnti á síðasta ári að transfólki væri heimilt að ganga í herinn en fyrr í þessum mánuði samþykkti Mattis að fresta gildistöku ákvörðunarinnar. Virðast tíst Trumps benda til þess að hann hafi ákveðið að falla alfarið frá stefnu forvera síns.

Í dag renn­ur út sá frest­ur sem her­inn hafði til að und­ir­búa heil­brigðisþjón­ustu sína fyr­ir herþjón­ustu trans­fólks.

Þá stend­ur yfir umræða í banda­ríska þing­inu um 700 millj­arða fjár­veit­ingu til Pentagon en re­públi­kan­ar hafa lagt fram viðauka við um­rætt frum­varp sem bann­ar hern­um að verja fjár­mun­um í kyn­leiðrétt­ing­araðgerðir og/​eða tengd­ar horm­ónameðferðir.

Trump hét því í aðrag­anda for­seta­kosn­ing­anna í fyrra að standa vörð um ýmis rétt­indi hinseg­in fólks og sagði m.a. að trans­fólk ætti að nota það sal­erni sem því þætti viðeig­andi. Hann hafði hins veg­ar ekki setið lengi í embætti þegar hann aft­ur­kallaði til­mæli Obama til rík­is­skóla um að heim­ila transnem­um að nota sal­erni að eig­in vali.

Frétt mbl.is: Trans­fólk ekki í her­inn á til­ætluðum tíma

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert