Obamacare lifir - þungt högg fyrir Trump

John McCain var með þeirra repúblikana sem greiddu atkvæði gegn …
John McCain var með þeirra repúblikana sem greiddu atkvæði gegn tillögu flokksins um afnám ákveðinna ákvæða Obamacare. AFP

Öldungadeild Bandaríkjanna hafnaði í nótt afnámi Obamacare, heilbrigðislöggjöf forsetans fyrrverandi, en um er að ræða verulegt bakslag fyrir ríkisstjórn Donalds Trumps og Repúblikanaflokkinn. Þrír flokksmenn greiddu atkvæði á móti frumvarpinu, sem var fellt með 51 atkvæði á móti 49.

John McCain, sem snéri aftur til Washington í vikunni eftir að hafa verið greindur með heilakrabbamein, var einn þeirra sem greiddi atkvæði á móti frumvarpinu.

Tillagan sem lá fyrir þinginu hefur verið kölluð „skinny repeal“ vestanhafs en hún gekk út á að afnema þau ákvæði Obamacare sem kveða á um að allir Bandaríkjamenn verði að vera sjúkratryggðir, ella sæta sektum.

Samkvæmt hinni ópólitísku fjárlagnefnd þingsins hefðu 15 milljónir manna orðið af sjúkratryggingum ef frumvarpið hefði farið í gegn og iðgjöld hækkað um 20%.

Trump gaf út yfirlýsingu á Twitter snemma í morgun þar sem hann sagðist nú vilja láta Obamacare „springa“. Repúblikanarnir þrír og demókratarnir 48 hefðu brugðist bandarísku þjóðinni.

Áður en atkvæðagreiðslan fór fram hvatti McCain blaðamenn til að fylgjast með en hann og varaforsetinn Mike Pence áttu síðan 20 mínútna samræður og leiða má líkur að því að tilgangur þeirra hafi verið að fá McCain til að hverfa frá afstöðu sinni.

En svo fór sem fór.

Trump hefur hótað því að snúa sér að öðru og …
Trump hefur hótað því að snúa sér að öðru og leyfa Obamacare að „springa“. Það yrði hins vegar gríðarlegt högg fyrir repúblikana ef þær neyddust til að játa sig sigraða. AFP

Eftir atkvæðagreiðsluna sagði Chuck Schumer, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, að hann og McCain hefðu talast við þrisvar til fjórum sinnum á dag síðan síðarnefndi snéri aftur til starfa.

„Hann er hetja,“ sagði Schumer um McCain. „Hann er hetjan mín.“

Þingmaðurinn sagðist ekki muna eftir dramatískara kvöldi, nema ef til vill þegar dóttir hans kom í heiminn.

Repúblikanar eru klofnir í afstöðu sinni til þess hvernig á að afnema Obamacare; hörðustu íhaldsmenn vilja lögin burt í heild sinni en hófsamari armur flokksins vill halda í ýmis ákvæði sem hafa reynst vel.

Demókratar hafa viðurkennt að heilbrigðislöggjöfin sé ófullkomin og hvatt repúblikana til þess að vinna að því með sér að betrumbæta hana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert