Trump: Eldflaugarskotið eykur á einangrun N-Kóreu

Donald Trump Bandaríkjaforseti stígur út úr forsetaflugvélinni. Hann fordæmdi í …
Donald Trump Bandaríkjaforseti stígur út úr forsetaflugvélinni. Hann fordæmdi í dag flugskeytatilraun Norður-Kóreu. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti varaði í dag stjórnvöld í Norður-Kóreu við áframhaldandi flugskeytatilraunum. Sagði Trump skot langdrægrar eldflaugar, sem Norður-Kóreumenn sendu á loft í dag, vera „ófyrirleitna og hættulega“ aðgerð sem muni „auka einangrun“ landsins enn frekar.

„Bandaríkin fordæma þessa tilraun og hafna þeirri fullyrðingu ríkisins að þessar prófanir – og þessi vopn – tryggi öryggi Norður-Kóreu. Raunveruleikinn er sá að þær hafa þveröfug áhrif,“ sagði í yfirlýsingu frá Trump.

„Með því að ógna heiminum einangra þessi vopn og prófanirnar enn frekar Norður-Kóreu, veikja efnahag landsins og ræna íbúa þess.“

Sagði Trump Bandaríkin muna grípa til allra nauðsynlegra ráða til að tryggja öryggi Bandaríkjanna og til að verja bandamenn sína í þessum heimshluta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert