Getur mögulega náð til New York

Fólk fylgist með eldflaugaskotinu á torgi í Pyongyang.
Fólk fylgist með eldflaugaskotinu á torgi í Pyongyang. AFP

Sérfræðingar segja eldflaugaskotið sem stjórnvöld í Norður-Kóreu framkvæmdu í gær sýna að ríkið búi mögulega yfir getu til að ógna stórborgum í Bandaríkjunum. Flaugin var á lofti í um 47 minútur og fór næstum 1.000 km.

Ríkisfréttastofa landsins hafði eftir leiðtoganum Kim Jong-un að tilraunaskotið væri staðfesting á áreiðanleika langdrægra eldflauga landsins og getu hersins til að skjóta á skotmörk eftir hentugleika.

Sagði hann eldflaugakerfið nú ná til alls meginlands Bandaríkjanna.

Talsmaður Pentagon staðfesti í gær að um langdræga eldflaug hefði verið að ræða, sem fór í sjóinn á japönsku hafsvæði.

Melissa Hanham, sérfræðingur í eldflaugaáætlun Norður-Kóreu, sagði tilraunina sýna að Alaska væri innan færis og að flugtíminn benti til þess að flaugin hefði mögulega getað náð til New York.

Þá sagði Jeffrey Lewis hjá Middlebury Institute of International Studies í Kaliforníu að Los Angeles væri innan skotfæris en Chicago, New York og Washington væru rétt utan seilingar. Hann ítrekaði þó að flaugin endurspeglaði e.t.v. ekki fulla getu.

Fregnir herma að ráðamenn í Washington og Suður-Kóreu hafi rætt saman í gær til að ræða möguleg hernaðarleg viðbrögð. Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, fordæmdi tilraunaskotið og sagði það til marks um raunverulega og alvarlega ógn gegn landinu.

Rússar virðast einangraðir í skoðun sinni á tilraunum Norður-Kóreu en þeir segja, þrátt fyrir yfirlýsingar norðurkóreskra og bandarískra yfirvalda, að aðeins sé um að ræða meðallangdrægar flaugar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert