178 bjargað úr tengivagni

Tantima í Veracruz.
Tantima í Veracruz. Kort/Google Maps

Yfirvöld í Mexíkó björguðu í gær 178 flóttamönnum frá Mið-Ameríku úr tengivagni í ríkinu Veracruz. Meðal fólksins voru konur og börn, en fólkið hefur fengið tímabundið skjól í bænum Tantima, um 643 km frá landamærunum að Bandaríkjunum.

Engar upplýsingar hafa fengist um líðan fólksins, að því er CNN greinir frá.

Fólk sem hefur ákveðið að yfirgefa heimili sín í Gvatemala, Hondúras og El Salvador og freista þess að komast yfir landamærin til Bandaríkjanna fer um Veracruz á leið sinni.

Það ferðast um aftan í flutningabílum eða ofan á lestum og margir slasast eða láta lífið á leiðinni.

Í desember sl. björguðu yfirvöld 110 flóttamönnum frá Mið- og Suður-Ameríku sem sátu fastir í tengivagni í Veracruz. Bifreiðin sem dró vagninn lenti í árekstri og ökumaðurinn flúði. Það var ekki fyrr en lögreglumenn sem fóru á vettvang til að rannsaka slysið heyrðu öskur sem fólkið fannst.

Sumir voru slasaðir og aðrir sýndu einkenni súrefnisskorts.

Tíu flóttamenn létust í bifreið í Texas fyrir um viku, líklega í kjölfar þess að hitinn í bílnum varð óbærilegur. Hann fannst á bílastæði við Walmart í San Antonio.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert