Segir Kínverja „EKKERT“ hafa gert

Mörgum þykir óþægilegt til þess að hugsa að utanríkismálastefna Bandaríkjanna …
Mörgum þykir óþægilegt til þess að hugsa að utanríkismálastefna Bandaríkjanna sé iðkuð á Twitter-aðgangi forsetans. AFP

Donald Trump virðist hafa súrnað í afstöðu sinni til Kína og sakar ráðamenn þar í landi um að gera „EKKERT“ til að hjálpa með Norður-Kóreu. Twitter var að sjálfsögðu sá vettvangur sem Bandaríkjaforseti valdi til að koma skoðun sinni á framfæri og sagði hann Kína hafa valdið sér miklum vonbrigðum.


Trump leitaði á samskiptamiðla í kjölfar þess að stjórnvöld í Norður-Kóreu fögnuðu annarri tilraun sinni með langdræga eldflaug á föstudag, sem ríkismiðlar þar í landi sögðu viðvörun til „skepnulegra bandarískra heimsvaldasinna“.

Á laugardag sakaði Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Kínverja og Rússa um að vera efnahagslega meðvirka með ráðamönnum í Norður-Kóreu og sagði þá bera ábyrgð á herskárri kjarnorkuáætlun landsins.

Dali Yang, sérfræðingur í kínverskum stjórnmálum við Chicago-háskóla, sagði tíst forsetans að hluta miða að því að beina athyglinni frá erfiðleikum sínum í tengslum við afnám Obamacare.

Hann sagði stjórnvöld í Kína hins vegar þurfa að ákveða hvernig þau hygðust taka á málum, nú þegar athygli Bandaríkjaforseta væri aftur á heimsmálunum.

„Þetta er forsetinn, enn á ný, að stjórna utanríkismálastefnu sinni með því að tísta,“ hefur Guardian eftir Yang.

Kínverjar hafa ekki brugðist við ummælum Trump, enn sem komið er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert