Skutu frambjóðanda stjórnlagaþings til bana

Venesúelabúar bíða í röð fyrir utan kjörstað til að greiða …
Venesúelabúar bíða í röð fyrir utan kjörstað til að greiða atkvæði í borginni Caracas. AFP

Einn frambjóðenda í stjórnlagaþingskosningunum sem fram fara í Venesúela í dag var myrtur skömmu áður en kjörstaðir voru opnaðir. Þá var einn af aðgerðarsinnum stjórnarandstöðunnar einnig myrtur að því er fram kemur á fréttavef BBC.

Morðin áttu sér stað skömmu áður en kjörstaðir voru opnaðir í dag, en Nicolas Maduro, forseti Venesúela, vill auka völd forsetans með breytingum á stjórnarskránni.

Stjórnarandstaða landsins hefur sagt breytingarnar til þess eins hugsaðar að auka völd Maduros og hefur hvatt almenning til að sniðganga kosningarnar. Ríkisstjórnin segir stjórnlagaþingið hins vegar einu leiðina til að koma aftur á friði í landinu eftir óeirðir og mótmæli síðustu mánaða.

José Felix Pineda, 39 ára lögfræðingur, sem hafði boðið sig fram til stjórnlagaþingsins, var skotinn til bana á heimili sínu seint í gærkvöldi. Þá var Ricardo Campos, ritari ungliðahreyfingar stjórnarandstöðuflokksins Acción Democrática, skotinn í höfuðið í mótmælum í gær.

Að sögn venesúelska dagblaðsins El Universal voru tveir menn til viðbótar myrtir í mótmælum í gær. Mótmæli fóru fram víða um landið í gær og lokuðu mótmælendur m.a. vegum til höfuðborgarinnar með því að kveikja þar í ruslahrúgum.

Maduro sagði í ræðu í venesúelska sjónvarpinu að hann byggist við „stórsigri“ í kosningunum sem væru þær mikilvægustu sem haldnar hefðu verið innan stjórnkerfis landsins.

Mikil mótmæli hafa verið gegn stjórnlagaþingsáætlun Maduros í landinu undanfarna fjóra mánuði og hafa þau þegar kostað rúmlega 100 manns lífið.

Venesúelabúar greiða atkvæði á kjörstað.
Venesúelabúar greiða atkvæði á kjörstað. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert