Frysta eigur Maduros í Bandaríkjunum

Óeirðalögregla á götum Caracas í Venesúela í gær. Til blóðugra …
Óeirðalögregla á götum Caracas í Venesúela í gær. Til blóðugra mótmæla kom milli stuðningsmanna Maduros og andstæðinga. AFP

Bandarísk stjórnvöld hafa skilgreint Nicolas Maduro, forseta Venesúela, sem einræðisherra og hafa fryst eigur hans í Bandaríkjunum í kjölfar stjórnlagaþingskosningar í Venesúela í gær.

Er öllum bandarískum fyrirtækjum og einstaklingum bannað að eiga í viðskiptum við Maduro.

Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, varaði í dag við því að Venesúela sé á barmi hörmunga, í kjölfar óeirðanna sem fylgdu kosningunum í gær. „Venesúela er á barmi hörmung og stjórn Nicolas Maduros verður að stoppa áður en það er of seint,“ sagði Johnson. „Landsmenn eru farnir að snúast gegn hver öðrum  - rúmlega hundrað hafa þegar dáið – og lýðræði og grundvallar réttindi eru í hættu.“

„Atkvæði með byltingunni“

Kosningarnar eru einnig afar umdeildar meðal íbúa Venesúela og hefur ítrekað komið til mótmæla og óeirða undanfarna mánuði vegna fyrirhugaðra stjórnarskrárbreytinga. Stjórnlagaþinginu er ætlað að gera breytingar á stjórnarskrá landsins, sem auka munu völd forsetans.

Kosningaþátttaka í gær var dræm og segir stjórnarandstaðan 88% kjósenda hafa haldið sig heima. Maduro hefur þó lofað kosningarnar og sagt þær vera „atkvæði með byltingunni“.

Dómsmálaráðherra Venesúela, Luisa Ortega, sem hefur ekki farið leynt með andstöðu sína við málið, sagði í dag að hún muni ekki viðurkenna stjórnlagaþingið, sem hún segir sýna „einræðislega tilburði“ Maduros.

„Öll stjórnmálaréttindi eru í hættu,“ sagði Ortega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert