Segja 41% tekið þátt í umdeildum kosningum

Nicolas Maduro, forseti landsins, var ánægður þegar hann fagnaði með …
Nicolas Maduro, forseti landsins, var ánægður þegar hann fagnaði með stuðningsfólki í höfuðborgini Caracas í nótt. AFP

Starfsmenn kjörstjórnar í Venesúela segja að kosningaþátttaka í umdeildum stjórnlagaþingskosningum hafi verið 41,5%. Stjórnarandstæðingar telja að þátttakan hafi verið mun minni. Þeir segja að 88% kjósenda hafi setið hjá og neitað að viðurkenna kosningarnar.

Þá hefur stjórnarandstaðan boðað frekari mótmæli í dag. 

Fram kemur á vef BBC, að átök hafi verið víða í Venesúela í gær á meðan kosningarnar stóðu yfir. Þá var víða mótmælt en talið er að a.m.k. 10 hafi látist.

Nicolás Maduro, forseti Venesúela, fagnaði kosningunum og sagði að þetta væri stærstu kosningar byltingarinnar.

Nýtt stjórnlagaþing mun hafa umboð til að endurskrifa stjórnarskrá landsins og hunsa þingið sem stjórnarandstæðingar stýra. 

Maduro segir að þetta sé eina leiðin til að koma á friði í kjölfar átaka, mótmæla og pólitískrar pattstöðu sem hefur staðið yfir mánuðum saman. Andstæðingar hans sjá þetta aftur á móti sem leið fyrir forsetann að auka völdin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert