Umsátur um sendiráð Íraks í Kabúl

Afganskar öryggissveitir stóðu í margra klukkustunda skotbardaga við árásarmenn sem …
Afganskar öryggissveitir stóðu í margra klukkustunda skotbardaga við árásarmenn sem gerðu tilraun til að komast inn í sendiráðið í Kabúl. AFP

Afganskar öryggissveitir skiptust á skotum við byssumenn í kjölfar sjálfsvígsárásar fyrir utan íraska sendiráðið í Kabúl í morgun. Sjálfsvígsárásarmaður sprengdi sig í loft upp við hlið sendiráðsins í hverfinu Shar-e-Naw en þrír aðrir menn réðust inn á lóðina í kjölfarið.

Samkvæmt afganska innanríkisráðuneytinu er umsátrinu um sendiráðið lokið en fregnir herma að enn heyrist skothvellir í hverfinu. 

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslam hafa lýst ábyrgðinni á hendur sér.

Fjöldi árása hefur átt sér stað í Kabúl á árinu sem hafa verið raktar ýmist til Ríkis íslam eða Talíbana.

Kunnugir segja hins vegar um að ræða fyrstu árásina á sendiráð Írak í borginni. Árásin kann að tengjast því að sendiráðið boðaði til blaðamannafundar fyrir um tveimur vikum til að fagna sigrinum á Ríki íslam í írösku borginni Mósúl.

Myndir sem fólk hefur deilt á samfélagsmiðlum sýna svarta reykbólstra stíga upp frá borginni.

Engar fregnir hafa borist af mannfalli meðal sendiráðsstarfsmanna en tveir …
Engar fregnir hafa borist af mannfalli meðal sendiráðsstarfsmanna en tveir afganskir öryggisverðir eru sagðir hafa látist. AFP

Skotbardaginn milli árásarmannanna og öryggissveita stóðu yfir í nokkrar klukkustundir. Þegar þeir voru yfirstaðnir sagði innanríkisráðherrann að allir árásarmennirnir hefðu verið drepnir.

Óvíst er um meiðsl á öðru fólki. Að sögn innanríkisráðuneytisins særðist einn afganskur lögreglumaður en starfsmenn sendiráðsins eru sagðir hafa komist undan.

Samkvæmt íraska utanríkisráðuneytinu var sendiherrann í Kabúl fluttur í sendiráð Egyptalands. Ráðuneytið gaf það út að tveir afganskir öryggisverðir hefðu látist.

Að minnsta kosti 1.662 afganskir borgarar hafa látið lífið í árásum það sem af er ári, samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna, þar af 20% í höfuðborginni.

Hinn 31. maí sl. létust fleiri en 150 í mikilli sprengingu í miðborginni en um var að ræða mannskæðustu árásina sem framin hefur verið í landinu frá því að Bandaríkjamenn hröktu Talíbana frá völdum árið 2001.

Mannfallið undirstrikar hversu viðkvæmt ástandið er en Donald Trump Bandaríkjaforseti vegur nú og metur hvort fjölga beri bandarískum hermönnum í landinu til að styðja við herinn og lögreglu.

Árásin hófst þannig að sjálfsvígsárásarmaður sprengdi sig í loft upp …
Árásin hófst þannig að sjálfsvígsárásarmaður sprengdi sig í loft upp við hlið sendiráðsins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert