„Við viljum dauðarefsingu!“

Mótmælendur létu vel í sér heyra þegar hinir grunuðu voru …
Mótmælendur létu vel í sér heyra þegar hinir grunuðu voru leiddir fyrir rétt í Tyrklandi. AFP

Réttarhöld eru hafin yfir tæplega 500 manns, sem handteknir voru í kjölfar valdaránstilraunarinnar í Tyrklandi í fyrra, grunaðir um að hafa komið að skipulagningu hins misheppnaða valdaráns.

Hæðst var að nokkrum hinna grunuðu þegar vopnaðir her- og lögreglumenn leiddu þá í handjárnum inn í réttarsal fyrir framan sjónvarpsmyndavélar. Málaferlin sem nú um ræðir varða atburði sem áttu sér stað við Akinci-herflugstöðinni, þar sem höfuðstöðvar hinna grunuðu skipuleggjenda valdaránstilraunarinnar eru sagðar hafa verið.

Réttarhöldin fara fram í sérstökum dómssal rétt fyrir utan höfuðborgina Ankara sem settur var upp sérstaklega fyrir réttarhöldin að því er fram kemur í umfjöllun BBC um málið. 

Köstuðu snörum í átt að hinum grunuðu

Hinir grunuðu eru sakaðir um ýmis brot, meðal annars að hafa reynt að ráða forseta landsins af dögum og fyrir manndráp. Á meðan nokkrir hinna ákærðu voru leiddir fyrir rétt mátti heyra mótmælendur kalla að þeim „við viljum dauðarefsingu!“

Einhverjir mótmælendanna voru aðstandendur þeirra sem drepnir voru eða særðust í valdaránstilrauninni og köstuðu þeir hengingarsnörum í átt að hinum grunuðu.

Alls létust 249 borgarar þegar hermenn í uppreisnarhug gerðu tilraun til valdaránsins í júlí í fyrra. Herforingjanum Gen Hulusi Akar og fleirum háttsettum einstaklingum í hernum var haldið í gíslingu á herflugvellinum í nokkrar klukkustundir nóttina sem valdaránstilraunin var gerð.

Eiga yfir höfði sér þungar refsingar

Réttarhöldin eru þau stærstu til þessa er snúa að valdaránstilrauninni en talið er líklegt að þeir sem kunni að verða fundnir sekir verði dæmdir í lífstíðarfangelsi. Dauðarefsing var afnumin í landinu árið 2004.

Talið er að skipun um að sprengja upp þinghúsið hafi verið send úr Akinci-herflugstöðinni sem staðsett er norðvestur af Ankara, á sama tíma og hermenn gerðu tilraun til að bola Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, burt frá völdum.

Í kjölfar tilraunarinnar sem misheppnaðist hafa þúsundir verið handteknir, margir grunaðir um vensl við klerkinn Fethyllah Gulen sem er í útlegð frá Tyrklandi og heldur til í Bandaríkjunum.

Um er að ræða stærstu réttarhöldin til þessa sem tengjast …
Um er að ræða stærstu réttarhöldin til þessa sem tengjast valdaránstilrauninni í Tyrklandi í fyrra. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert