Vildi „komast aftur í fangelsi“

Tommy Ray McAdoo.
Tommy Ray McAdoo.

Heimilislaus maður á áttræðisaldri rændi banka í borginni Reno í Nevada í Bandaríkjunum til að „komast aftur í fangelsi“ í stað þess að eyða síðustu árunum á götunni, kaldur og veikur.

Maðurinn hafði áður framið nokkur bankarán og setið inni í fangelsi, en eftir að hann veiktist ákvað hann að fremja annan glæp til að vera handtekinn og færður í fangelsi á ný. 

Tommy Ray McAdoo á yfir höfði sér 25 ára fangelsisvist fyrir að hafa ráðist inn í banka vopnaður steikarhníf og rænt fúlgum fjár. Dómur verður kveðinn upp yfir honum í dag.

„Glæpurinn var framinn af alvarlega veikum heimilislausum manni, sem ákvað, eftir að hafa verið utan kerfisins í átta ár, að hann þyrfti að gera eitthvað til að komast aftur inn í fangelsi,“ sagði verjandi hans.

Ránið var framið í nóvember á síðasta ári, en McAdoo var handtekinn í spilavíti nálægt bankanum skömmu síðar. McAdoo hefur fimm sinnum áður verið dæmdur fyrir bankarán.

McAdoo losnaði síðast úr fangelsi árið 2008, en bjó eftir það í fátækt í Seattle þar sem hann lifði á greiðslum frá ríkinu. Árið 2012 flutti hann til Reno þar sem hann fór að stunda fjárhættuspil en tapaði öllu og endaði á götunni.

Árið 2014 var hann svo fluttur á sjúkrahús með mikla brjóstverki og greindur með kransæðasjúkdóm. Ráðlagði læknir honum að fara í hjartaaðgerð en hann neitaði. Sagði læknirinn honum að það þýddi að hann myndi ekki lifa mikið lengur, og sagðist McAdoo þá vera tilbúinn í dauðann.

Fyrir dómi hefur hann viðurkennt að hafa framið bankaránið til að komast úr kuldanum og aftur inn í fangelsi, þar sem hann vilji ekki eyða sínum síðustu árum heimilislaus.

Frétt CBS fréttastofunnar um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert