Mun ekki láta Trump traðka á sér

Christopher Wray kom fyrir þingnefnd í júlí til að svara …
Christopher Wray kom fyrir þingnefnd í júlí til að svara spurningum þingmanna um viðhorf sitt til FBI. Hann sagðist ætla að standa í lappirnar gagnvart öllum þeim sem myndu reyna að hafa áhrif á hans störf á forstjórastóli. AFP

Vonast er til þess að Alríkislögreglan, FBI, fái nú vinnufrið eftir að öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti með miklum meirihluta atkvæða að fela Christopher A. Wray að leiða þessa helstu löggæslustofnun landsins. Hann mun fylla skarð James B. Comey, er átti í erfiðu sambandi við Donald Trump forseta sem að endingu rak hann úr starfi í maí. Þetta baneitraða samband Comeys og Trumps var talið skaða stofnunina og þó að margir séu enn mjög ósáttir við að forsetinn hafi látið forstjórann fjúka þá eru flestir á því að mikilvægast af öllu sé að starfsfriður komist á innan FBI.

En fólk hefur skiljanlega áhyggjur af því að vinnufriðurinn verði lítill ef Trump mun halda uppteknum hætti og reyna að hafa afskipti af verkefnum FBI. Þeir sem þekkja hinn nýja forstjóra segja slíkar áhyggjur óþarfar. Hann sé hæglátur leiðtogi en fastur fyrir og geri sér grein fyrir því hversu mikilvægt sjálfstæði FBI sé. Stofnunin verði að vinna algjörlega óháð því hver situr í forsetastólnum í Hvíta húsinu. Er Wray kom fyrir þingnefnd um miðjan júlí til að staðfesta trúnað og traust við þá stofnun sem hann mun nú leiða, ítrekaði hann margsinnis að hann myndi stjórna FBI óháð hver héldi um valdatauma landsins hverju sinni. Hann sagðist hiklaust segja af sér ef hann yrði beðinn um eitthvað ólöglegt eða siðlaust.

Donald Trump var ekki hress með rannsókn FBI á samskiptum …
Donald Trump var ekki hress með rannsókn FBI á samskiptum fólks úr hans röðum við Rússa í aðdraganda forsetakosninganna. Hann átti m.a. fundi með forstjóra stofnunarinnar, James Comey, vegna málsins. Í maí rak Trump Comey úr embætti. AFP

Atkvæðagreiðslan um tilnefningu Trumps á þessum eftirmanni Comeys, sem þegar hafði fengið grænt ljós hjá þingnefndinni, fór fram á þinginu í gær. Hún fór 92-5. Þeir fimm þingmenn sem lögðust gegn ráðningu Wrays voru demókratarnir Kirsten Gillibrand, Elizabeth Warren, Ron Wyden, Ed Markey og Jeff Merkley.

Mun fylgja staðreyndunum

En hver er þessi maður sem mun nú taka við FBI?

Wray er fimmtugur að aldri. Hann er lögfræðimenntaður frá Yale-háskóla og hlaut lögmannsréttindi sín árið 1992. Hann hóf störf sem alríkissaksóknari í Atlanta árið 1997 og varð aðstoðarríkissaksóknari í stjórnartíð George W. Bush forseta. Því starfi gegndi hann til ársins 2005. Hann hefur síðustu ár starfað sjálfstætt sem lögmaður.

„Hollusta mín er gagnvart lögunum, gagnvart stjórnarskránni,“ sagði Wray við þingnefndina í júlí. „Ég mun fylgja staðreyndunum hvert svo sem þær leiða mig. Það er ekki ein einasta manneskja á þessari jörð sem gæti notað áhrif sín eða beitt mig þrýstingi til að fá mig til að hætta rannsókn mála.“

Formaður nefndarinnar, Chuck Grassley, minnti Wray á að hann tæki við stofnuninni á meðan hún er og mun halda áfram að rannsaka tengsl Trumps við Rússa. „Þetta eru mikilvægar og viðkvæmar rannsóknir og fólk í háttsettum stöðum má ekki með óviðeigandi hætti hafa áhrif á þær. Það á líka við forstjóra FBI,“ sagði Grassley.

Margir óttast að Trump reyni að hafa áhrif á nýjan …
Margir óttast að Trump reyni að hafa áhrif á nýjan forstjóra FBI. Wray hefur fullvissað þingmenn um að slíkt muni ekki gerast. AFP

Í frétt New York Times um ráðningu Wrays segir að líklega séu starfsmenn FBI henni fegnir. Þeir hafi viljað sterkan yfirmann til að standa í lappirnar ef einhver úr Hvíta húsinu færi aftur að reyna að skipta sér af málefnum stofnunarinnar, líkt og Trump gerði gagnvart Comey. „Núna, meira en nokkru sinni, þarf stofnunin staðfastan og sjálfstæðan leiðtoga,“ segir Sheldon Whitehouse, þingmaður demókrata. „Wray hefur fullvissað okkur um að hann geti verið sá leiðtogi.“

Það voru ekki síst eftirfarandi orð Wrays sem færðu þingnefndinni vissuna: „Ég geri mér fulla grein fyrir því að þetta starf er ekki fyrir þá sem eru veikgeðja. Ég get fullvissað þessa nefnd um að ég er ekki veikgeðja.“

Greinin er m.a. byggð á fréttum New York Times, AFP og CNN.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert