Sofa í tjöldum við seðlabankann

Deilt er um það hverjir eiga að fjarlægja heimilislausa sem …
Deilt er um það hverjir eiga að fjarlægja heimilislausa sem reist hafa tjaldborg á Martin Place. Mynd/Wikipedia

Um 50 manna hópur heimilislausra í Sydney í Ástralíu hefur reist tjaldborg fyrir utan seðlabanka Ástralíu í hjarta borgarinnar þar sem fólkið hefst við og sefur. Deilt er um hver á að taka á málinu. Fulltrúar borgarinnar og ríkisstjórnarinnar benda hvorir á aðra. AFP-fréttastofan greinir frá

Svæðið sem um ræðir kallast Martin Place og þar standa glæsilegar skrifstofubyggingar og verslanir í fínni kantinum. Einhverjir hafa þegið hjálp yfirvalda og fengið samastað annars staðar en svo virðist sem aðrir komi þá í þeirra stað.

Clover Moore, borgarstjóri í Sydney, segir að kenna verði yfirvöldum í landinu um ástandið vegna margra áratuga aðgerðaleysis í að sporna við vaxandi fjölda heimilislausra. Borgarstjórnin segist ekki hafa völd til að fjarlæga fólkið af svæðinu og hefur kallað eftir aðgerðum ríkisins. Það verði að útvega efnaminna fólki húsnæði á viðráðanlegu verði.

„Það er ekki ólöglegt að vera heimilislaus og í mörgum tilfellum eru það afleiðingar af skorti á framboði á húsnæði á viðráðanlegu verði,“ sagði Moore í yfirlýsingu í vikunni.

„Við höfum völd til þess að breyta skipulagi og gera svæði örugg en við getum ekki flutt fólkið með valdi af svæðinu. Lögreglan verður að gera það. Við ætlum hins vegar ekki að kalla til lögreglu,“ sagði hún jafnframt.

Yfirvöld í landinu segja það hins vegar á ábyrgð borgarinnar að finna lausn á þessu vandamáli og að fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafi farið á svæðið yfir 40 sinnum en fólk neiti að fara. Það neiti hjálpinni sem býðst. Þá er skorað á borgarstjórnina að láta fjarlægja tjaldborgina.

Að meðaltali eiga um 400 manns  ekki í nein hús að venda á nóttunni og sofa því víðsvegar um borgina. Sérfræðingar hafa varað við að þessi tala fari ört hækkandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert