Sögðu drottningarmanninn látinn

Greinin var birt á forsíðu Telegraph í morgun. Líklega má …
Greinin var birt á forsíðu Telegraph í morgun. Líklega má rekja mistökin til þess að í dag sinnir Filippus sínu síðasta embættisverki sem drottningarmaður og einhver hefur mögulega farið línuvilt í tölvukerfi Telegraph. Skjáskot/Telegraph

„EKKI BIRTA, EKKI BIRTA, EKKI BIRTA Filippus prins, hertoginn af Edinborg, er látinn xx.“ Þannig var fyrirsögn á frétt sem breska blaðið Daily Telegraph birti á vef sínum í morgun. Greinin var augljóslega ekki fullbúin og því birt fyrir algjör mistök. Sérstaklega í ljósi þess að Filippus er sprelllifandi, þó hann sé nú að setjast í helgan stein og ætli að hætta að sinna embættisverkum fyrir krúnuna. Greinin var aðeins inni í skamma stund en nógu lengi til að eftir henni væri tekið.

Filippus prins er orðinn 96 ára og í dag er síðasti dagurinn sem hann mun sinna opinberum skyldustörfum fyrir krúnuna. Í grein Telegraph stóð hins vegar: „Hertoginn af Edinborg, er látinn, XX að aldri. Þetta hefur Buckingham-höll tilkynnt.“ Svo stóð: Filippus prins, sem drottningin hefur lýst sem styrk og stoð alla sína valdatíð, lést klukkan XXXX.“

Greinin var nokkuð ítarleg og í henni var farið yfir feril Filippusar drottningamanns. Í henni kom m.a. fram að hertoginn myndi fá konunglega útför.

Talsmaður Telagraph segir blaðið harma mjög að greinin hafi óvart birst í morgun. „Við munum nú fara yfir vinnulag okkar.“

Þess má geta að margir fjölmiðlar geyma hjá sér tilbúnar greinar sem þessar um aldna þjóðhöfðingja og önnur fyrirmenni sem síðan eru lagaðar til og birtar er þeir falla frá. 

Frétt Guardian um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert