Dönsk stúlka berst með Ríki íslams

Frá Raqqa - helsta vígi Ríkis íslams í Sýrlandi.
Frá Raqqa - helsta vígi Ríkis íslams í Sýrlandi. AFP

Nítján ára gömul dönsk stúlka var í gær ákærð fyrir að hafa gengið til liðs við vígasamtökin Ríki íslams og að hafa fengið frænku sína til þess að gera hið sama. Stúlkan var ekki viðstödd fyrirtöku málsins í héraðsdómi Glostrup þar sem hún er stödd í Sýrlandi.

Talið er að hún hafi farið frá Danmörku í júní í fyrra og farið til Raqqa í Sýrlandi í gegnum Tyrkland.

Lögmaður stúlkunnar mætti fyrir hennar hönd í réttarsalinn í gær og lýsti hana saklausa af ákæru. Réttarhaldið fer fram fyrir luktum dyrum sem þýðir að ekki er upplýst um hver unga konan er né heldur fá fjölmiðlar og almenningur aðgang að réttarsalnum.

Hún er sökuð um að hafa reynt að fá frænku sína til þess að koma með til Sýrlands til að berjast með Ríki íslam. Frænkan hefur setið í fangelsi frá því í mars en hún er fyrst kvenna í Danmörku til að vera ákærð fyrir brot á hryðjuverkalöggjöf landsins með því að reyna að ganga til liðs við vígasamtökin. Frænkunni tókst ekki ætlunarverkið þar sem foreldrar hennar lögðu hald á vegabréf hennar áður en ferðalagið hófst.

Saksóknari í málinu, Bo Bjerregaard, sagði í samtali við Ritzau-fréttastofuna í gær að yfirvöld hafi ekki enn ákveðið hvort lögð verði fram alþjóðleg handtökuskipun á ungu konuna sem er ákærð í þessu máli.

Báðar konurnar eru úr úthverfi Kaupmannahafnar, Vestegn. Lögreglan í Vestegn er með nokkra íbúa hverfisins í haldi sem eiga það sammerkt að hafa ætlað sér að ganga til liðs við Ríki íslams.

Frétt Politiken

Frétt Ekstra Bladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert