Segir Kim „þybbinn kjána“

Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu.
Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu. AFP

Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, segir Kim Jong-un vera „þybbinn“ kjána og „tíkarson“. Þessi orð lét forsetinn falla nokkrum dögum áður en fram fer í landi hans leiðtogafundur þar sem ljóst þykir að kjarnavopnaáætlun einræðisherra Norður-Kóreu verður rædd.

Duterte lét gamminn geisa um Kim og sagði hann leika sér með hættuleg „leikföng“. Á leiðtogafundinn munu mæta utanríkisráðherrar allra þeirra ríkja sem afskipti hafa haft að deilunni á Kóreuskaga.

Í frétt Guardian um málið er það rifjað upp að ríkisstjórn Norður-Kóreu sé ákveðin í því að þróa langdræga kjarnorkueldflaug sem hægt væri að skjóta alla leið til Bandaríkjanna. Bandaríkjastjórn segir að prófanir þeirra hafi sýnt að slíkri flaug væri hægt að skjóta til flestra ríkja landsins.

„Þessi Kim Jong-un er kjáni...hann er að leika sér með hættuleg leikföng, kjáninn sá,“ sagði Duterta í ræðu sem hann hélt á fundi með skattayfirvöldum.

„Þetta þybbna andlit virðist indælt. Þessi tíkarsonur. Ef hann gerir mistök gætu Austurlönd fjær orðið eyðimörk. Það verður að stöðva þetta kjarnorkustríð.“

Duterte sagði að ef tilraunir Kims mistækjust gætu eiturefni frá farið í jarðveginn og spillt auðlindum. „Ég vil ekki að það komi fyrir okkur.“

Í ár gegnir Duterte forsæti í sambandi Suður-Asíu ríkja (Asean) og á mánudag munu utanríkisráðherrar 27 aðildarríkja sambandsins hittast. Meðal ríkja sem aðild eiga að sambandinu eru Ástralía, Kína, Indland, Japan, Rússland, Bandaríkin og Norður- og Suður-Kórea.

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er væntanlegur á fundinn. Hann sagðist í fyrradag vilja eiga samræður við stjórnvöld í Norður-Kóreu og ítrekaði að landið væri ekki óvinur Bandaríkjanna og að stjórn sín ætlaði sér ekki steypa stjórn Kims af stóli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert