Skiptar skoðanir um kosningaþátttöku í Venesúela

Nicolas Maduro, forseti Venesúela.
Nicolas Maduro, forseti Venesúela. AFP

Fyrirtækið sem útvegaði kosningavélarnar sem notaðar voru í umdeildum kosningum til stjórnlagaþings sem fram fóru í Venesúela á sunnudag, segir að átt hafi verið tölur yfir kosningaþátttöku. Kjörstjórn í Venesúela vísar þessu á bug og segir yfir átta milljón manns, eða um 41,5% kosningabærra manna, hafi tekið þátt í nýafstöðnum kosningunum.

Framkvæmdastjóri fyrirtækisins Smartmatics, Antonio Mugica, er á öðru máli og segir að raunveruleg kosningaþátttaka hafi verið ýkt um sem nemur eina milljón þátttakenda hið minnsta.

„Mér þykir það afar miður en við neyðumst til að greina frá því að átt hefur verið við tölur yfir kosningaþátttöku sunnudaginn 30. júlí til stjórnlagaþings í Venesúela,“ sagði Mugica á blaðamannafundi í London í dag.

Kjörstjórn vísar þessum orðum framkvæmdastjórans á bug og hótar að hefja málaferli gegn Mugica. Tipisay Lucena, sem situr í kjörstjórninni, segir ummæli framkvæmdastjórans vera „ábyrgðarlausar ásakanir sem byggi á matskenndum þáttum.“

Stjórn­ar­and­stæðing­ar hafa jafnframt haldið því fram þátt­tak­an hafi verið mun minni en kjörstjórn heldur fram og segja að 88% kjós­enda hafi setið hjá og neitað að viður­kenna kosn­ing­arn­ar.

Mugica segir fyrirtækið hafa haldið utan um réttar tölur yfir kosningaþátttöku og að þær stemmi ekki við þær tölur sem kjörstjórn hefur fullyrt að séu réttar. Notast var við um 24.000 kosningavélar fyrirtækisins í kosningunum á sunnudag.

And­stæðing­ar for­set­ans segja að mark­miðið með kosn­ing­un­um sé að auka völd hans og koma í veg fyr­ir að hann missi embættið. Í kosningunni voru kjósendur beðnir að velja yfir 500 fulltrúa til að taka sæti sem fulltrúar á stjórnlagaþingi sem mun hafa völd til að endurskrifa stjórnarskrá landsins.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert