Vopnahlé í Homs

Forseti Rússlands, Vladimír Pútín, hvíslar í eyra varnarmálaráðherra landsins, Sergei …
Forseti Rússlands, Vladimír Pútín, hvíslar í eyra varnarmálaráðherra landsins, Sergei Shoigu, en Rússar stýrðu viðræðum um vopnahlé í Homs. AFP

Samkomulag hefur náðst um vopnahlé í Homs-héraði í Sýrlandi í morgun. Stjórnarherinn og stjórnarandstaðan komust að samkomulagi um að gera hlé á átökum frá og með klukkan 12 að staðartíma, klukkan 9 að íslenskum tíma. Rússar stýrðu viðræðum milli stríðandi fylkinga, segir í tilkynningu.

Talsmaður rússneska varnarmálaráðuneytisins, Igor Konashenkov, segir að í samkomulaginu sé nánari útfærsla á atriðum sem samið var um í Kaíró 31. júlí. Homs er þriðja svæðið sem samkomulag næst um vopnahlé á undir forsæti Rússa. Enn geisa bardagar á fjórum svæðum í Sýrlandi milli hers landsins og stjórnarandstöðunnar.

Konashenkov segir að rússneska herlögreglan muni setja upp tvær starfsstöðvar og eftirlitsstöðvar á þremur stöðum í  Homs á morgun. Sýrlenski herinn hefur látið sprengjum rigna yfir norðurhluta Homs undanfarið. Bæir á því svæði voru þeir fyrstu sem stjórnarandstaðan náði á sitt vald árið 2012 eftir að uppreisnin gegn Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, hófst. Engin vígasamtök, svo sem Ríki íslams, hafa náð fótfestu á þessu svæði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert