Taka áfram þátt í loftlagsviðræðum

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP

Bandaríkin munu taka þátt í alþjóðlegum samningaviðræðum í loftlagsmálum þrátt fyrir að hafa dregið sig út úr Parísarsamkomulaginu fyrr á þessu ári. Í yfirlýsingu frá innanríkisráðuneyti landsins segir að þetta sé meðal annars gert til að verja hagsmuni Bandaríkjanna.

Segir þar að þátttaka Bandaríkjanna í slíkum viðræðum muni meðal annars taka til þeirra viðræðna sem hafi átt sér stað um Parísarsáttmálann. Segir innanríkisráðuneytið að Bandaríkin muni mæta til funda og viðræðna til að verja bandaríska hagsmuni og halda öllum framtíðarmöguleikum opnum.

Ríkisstjórnin tilkynnti um leið að hún hefði látið Sameinuðu þjóðirnar vita formlega að Bandaríkin myndu draga sig úr Parísarsáttmálanum. Er þetta fyrsta formlega tilkynningin þess efnis eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði að Bandaríkin myndu segja sig frá sáttmálanum í byrjun júní.

Ákvörðun Trumps fyrir um tveimur mánuðum um að segja Bandaríkin frá sáttmálunum var mætt af mikilli óánægju víða um heim og gagnrýndu leiðtogar margra ríkja ákvörðunina. Trump sagði samkomulagið hins vegar vera verulega slæman samning fyrir Bandaríkjamenn og að með því að segja sig frá því væri hann að efna kosningaloforð sitt um að setja Bandaríkin í fyrsta sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert