Fórnað fyrir heiður fjölskyldunnar

Frá gjörningi við ströndina í Beirút í Líbanon í apríl.
Frá gjörningi við ströndina í Beirút í Líbanon í apríl. AFP

Þegar Lubna var fjórtán ára var hún með hæstu einkunnirnar í bekknum sínum og foreldrar hennar vonuðu að hún yrði læknir í framtíðinni. Þess í stað var henni nauðgað af frænda sínum og hún neydd til þess að giftast honum. Hjónabandið byggði á löggjöf landsins um að nauðgarar geti losnað við refsingu með því að kvænast fórnarlambi sínu. Með því sé heiðri fjölskyldunnar bjargað.

Á þriðjudaginn samþykkti jórdanska þingið að breyta lögum landsins á þann veg að nauðgarinn sleppur ekki lengur við refsingu með því að ganga að eiga fórnarlamb sitt en samkvæmt fyrri lögum féll refsingin niður ef hjónabandið varði í þrjú ár eða meira. 

Basma prinsessa, sem er systir Husseins fyrrverandi konungs Jórdaníu, fagnaði niðurstöðu neðri deildar þingsins og segir að tími hafi verið kominn til að breyta lögunum. Um réttindi kvenna í Jórdaníu sé að ræða og sigur fyrir alla Jórdana sem styðja réttlæti og jafnrétti. 

Frétt Jordan Times

Á miðvikudaginn var lagabreytingin síðan samþykkt í öldungadeild þingsins og er frumvarpið komið í hendur konungs, Abdullah II.

Frétt mbl.is: Umdeild lög afnumin

Í Marokkó framdi Amina Filali sjálfsvíg eftir að hafa verið þvinguð til þess að giftast manninum sem nauðgaði henni. Í kjölfarið hófu aðgerðarsamtökin Avaaz baráttu fyrir réttindum fórnarlamba nauðgana ásamt víðtækum stuðningi frá jafnréttissamtökum víða um heim. Fjölmargir tóku þátt í mótmælum fyrir utan þinghúsið í Marokkó og að lokum voru lögin afnunin.

Amina Filali.
Amina Filali.

En samkvæmt upplýsingum frá Avaaz er baráttunni hvergi nærri lokið því sjö ríki heims eru enn með í löggjöf sinni að ef nauðgarinn kvænist fórnarlambinu þá sleppur hann við refsingu. 

Samkvæmt upplýsingum frá Human Rights Watch er slíkt ákvæði í lögunum Alsír, Írak, Kúveit, Líbýu, Sýrlandi, Palestínu. Löndin eru öll múslímaríki en sjöunda landið er kaþólskt  - Filippseyjar.

Jafnréttissamtök víðsvegar um heim hafa ítrekað bent á að með lögum sem þessum sé fórnarlambið gert að sökudólgi. Ef þú kærir nauðgun þá er þér refsað með því að þurfa að hvíla í hjónasæng með ofbeldismanninum. 

Samkvæmt frétt New York Times er hundruð kvenna nauðgað á ári hverju í Jórdaníu og á meðan karlar komast upp með það þá fækkar nauðgunum ekki. 

 

 

Forsætisráðherra Jórdaníu, Hani Mulqi, er einn þeirra sem studdi lagabreytinguna en hann sagði við þingheim á þriðjudag: „Ríkisstjórninni ber að eyða lagagrein 308 til þess að verja jórdanskar fjölskyldur enn frekar,“ sagði hann. Afar fáir þingmenn voru andsnúnir breytingunni og var ákaft fagnað þegar niðurstaðan lá fyrir.

Eva Abu Halaweh, lögfræðingur og félagi í teymi lögfræðinga sem nefnist Mizan, segir samþykkt þingsins sigur fyrir öll fórnarlömb nauðgana. Sarah Leah Whitson, sem fer með málefni Miðausturlanda hjá Human Rights Watch, fagnaði einnig niðurstöðunni. 

„BRAVO #Jórdanía fyrir að afnema viðstyggilega lagagrein 308 sem veitir nauðgurum sem kvænast fórnarlömbum sínum aflausn. Hvet #ríki Arabíu til þess að fylgja á eftir. Konur eru ekki eign,“ skrifar hún á Twitter.

BRAVO #JORDAN for repealing heinous article 308 absolving rapists who marry their victims. Urge #Arab states to follow. Women NOT property.

Hvítur kjóll hylmir ekki yfir nauðgun

Í síðustu viku voru sambærileg lög afnumin í Túnis og ný lög sett sem eiga að koma í veg fyrir ofbeldi gagnvart konum. 

New York Times

Independent

Hrikalegar myndir af konum klæddum blóðugum og rifnum brúðarkjólum voru hengdar upp víða í Beirút í Líbanon nýlega. Á þeim stóð: „Hvítur kjóll hylmir ekki yfir nauðgun“. 

Svipaðar veggmyndir hafa prýtt götur borga í Líbanon og víðar í Miðausturlöndum undanfarin ár en þeim er ætlað að vekja athygli á nauðgunarlöggjöfinni. Lögin voru sett til þess að vernda fjölskyldu fórnarlambsins fyrir hneykslinu eins og bróðir eins fórnarlambsins lýsir því fyrir NYT.

Veggspjöldum var dreift víða í Beirút í Líbanon nýverið þar …
Veggspjöldum var dreift víða í Beirút í Líbanon nýverið þar sem lög sem veita nauðgurum sakaruppgjöf með því að kvænast fórnarlambinu eru gagnrýnd. Wikipedia

Basma Mohamad Latifa var nauðgað fyrir þremur árum síðan í þorpi í Suður-Líbanon. Nauðgarinn er tvöfalt eldri en hún. Fjölskylda hennar ákvað að leita ekki á náðir lögreglu og gerði frekar samning við nauðgarann um að kvænast stúlkunni. Þannig myndi hann sleppa við kæru.  

Í júní kom maðurinn á heimili bróður hennar þar sem hún dvaldi og skaut hana níu sinnum. Hún var 22 ára þegar hún lést.

Amina Filali var sextán ára þegar hún gleypti rottueitur og lést árið 2012 eftir að hafa verið þvinguð í hjónaband með ofbeldismanninum í Marokkó.

Latifa-fjölskyldan vildi ekki segja sögu hennar opinberlega en samkvæmt upplýsingum NYT og Independent flúði Ahmad ásamt bróður sínum frá Sýrlandi til Líbanon. Þau eru súnní-múslímar og settust að í þorpi í Suður-Líbanon þar sem flestir íbúarnir eru síja-múslímar og létu því lítið fyrir sér fara.

Þorpsbúar áðlögðu hjónaband

Miðaldra karl fór að venja komur sínar til þeirra og nokkrum mánuðum síðar nauðgaði hann stúlkunni að sögn bróður hennar. Þorpsbúar ráðlögðu fjölskyldunni að gera hjúskaparsamning við manninn. „Systir mín var ósátt við samninginn en ég sannfærði hana um að hann væri til skamms tíma,“ segir Latifa.

Hún endaði með því að sitja föst í hjónabandi með nauðgaranum í þrjú ár líkt og lögin kváðu á um svo hann fengi syndaaflausn, segir Latifa.

„Hann barði hana sundur og saman,“ segir bróir hennar og segir að í hvert skipti sem hann hafi hitt systur sína hafi hann séð áverka á henni.

Hún skildi við eiginmanninn en það varð henni ekki til bjargar því sólarhring eftir að hann skrifaði henni hótunarbréf hafði hann myrt hana. Eiginmaðurinn var handtekinn og bíður nú ákæru fyrir morð. 

En bróðir Basma Mohamad Latifa er vantrúaður á að breytt löggjöf hefði breytt einhverju. Fjölskyldan var undir miklum þrýstingi að aðlagast nýju landi og siðum og þar sem þau eru flóttamenn þá skipti orð þeirra litlu sem engu. 

Löggjafarþing Jórdaníu steig frekari skref í jafnréttisátt í vikunni því komið hefur verið í veg fyrir að þeir sem drepa konur í þeim tilgangi að vernda heiður fjölskyldunnar geti fengið væga refsingu. Lögfræðingar höfðu bent á þá gloppu í lögum landsins að þeir sem drepa konu í fjölskyldunni til þess að verja heiður fjölskyldunnar gátu fengið sex mánaða dóm fyrir brotið. Svo er ekki lengur og gildir sami refsirammi um slík morð og önnur eftir breytinguna, samkvæmt frétt CBS

Hér er hægt að skrifa undir áskorun um að breyta nauðgunarlögum

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert