Sitja sveitt við framburðaræfingar

Þau sitja sveitt við framburðaræfingar á bökkum Bassin de la Villette-skurðarins í París. Franskt u er ekki auðvelt að bera fram og má heyra Ooh frá ungmennunum sem eru að læra frönsku á heitum sumardegi í París. Bak við heyrist tónlistin óma frá nærliggjandi börum og umferðarniður.

Um er að ræða 50 hælisleitendur sem sækja frönskutíma hjá samtökum sem styðja við bakið á flóttafólki í höfuðborg Frakklands. Flestir þeirra koma frá Súdan og Afganistan og eru á á tvítugs- og þrítugsaldri.

Um er að ræða tvo hópa nemenda – byrjendur og lengra komnir. Þeir sem eru lengra komnir læra meðal annars að spyrja til vegar og útskýra fyrir læknum. Flestir þeirra láta ekki rigningu eða rok stöðva sig við að mæta í tíma enda oft lítið annað um að vera á meðan beðið er eftir svari. 

„Þau mættu hingað þegar það var fimm stiga frost. Þau eru hér þegar rignir, þegar það er heitt og sólin skín í andlit þeirra. Þau eru mjög dugleg,“ segir kennari þeirra í samtali við AFP.

Sjaldgæft er hvort heldur sem það er í Evrópu eða annars staðar í heiminum að kennsla fari fram á fjölförnum stað í stórborg og því stöðva margir furðulostnir vegfarendur og fylgjast með kennslunni.

Byrjað var að kenna frönsku þarna í nóvember 2015 þegar flóttafólk streymdi til Evrópu í von um betra líf. Samtökin BAAM annast kennsluna og annast sjálfboðaliðar kennsluna fyrir hælisleitendur. Í Frakklandi fær flóttafólk ekki frönskukennslu á vegum ríkisins fyrr en það hefur fengið umsókn samþykkta.

„Vandamálið er hversu langt hælisumsóknarferlið er langt. Fólk vill læra frönsku en getur það ekki,“ segir Julian Mez, einn stofnenda BAAM. Hann sakar ríkið um að tefja ferlið enn frekar.

Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, hefur heitið því að stytta biðtímann úr 18 mánuðum í sex mánuði. 

Omar er 28 ára og kemur frá Súdan. Hann hóf frönskunámið fyrir 9 mánuðum en þá kunni hann ekki stakt orð í frönsku. „Í dag tala ég hana vel,“ segir hann á frönsku við fréttamanninn.

Engin kona er í hópnum en nemendurnir eru á aldrinum 15-30 ára. Kennslan fer fram í fjölmenningarhverfinu Stalingrad í norðausturhluta París, skammt frá samnefndri lestarstöð. Þar spruttu upp búðir flóttafólks sem átti ekki í nein hús að venda í fyrra. Í nóvember rýmdi lögreglan tjaldbúðirnar en þar höfðu þrjú þúsund manns komið sér fyrir. Stjórnvöld opnuðu þá skýli fyrir flóttafólk þar skammt frá en ekkert lát hefur verið á komu fólks frá Afríku, Miðausturlöndum og Asíu þannig að skýlið fylltist strax.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert