Tveir látnir eftir árás á herstöð

Brynvarður bíll keyrir niður víggirðingu mótmælenda í borginni Valencia.
Brynvarður bíll keyrir niður víggirðingu mótmælenda í borginni Valencia. AFP

Tveir árásarmenn voru drepnir og 10 voru teknir höndum í dag eftir árás á herstöð í Venesúela. Þetta staðfesti Nicolas Maduro forseti í ríkissjónvarpi landsins. 

Herstöðin var staðsett í borginni Valencia sem er í norðurhluta Venesúela. Heryfirvöld tilkynntu í dag að árás „hryðjuverkamanna“ á herstöðina hefði verið bægt frá. Fullyrt var að árásarmennirnir væru öfgahægrimenn sem hefðu játað að vera á mála hjá erlendum ríkisstjórnum.  

Í tilkynningunni sagði enn fremur að „hópur óbreyttra glæpamanna í herklæðum og liðsforingi sem hafði gerst liðhlaupi“ hefðu staðið á bak við árásina þar sem fjölda vopna var stolið. 

Liðsforinginn og nokkrir samverkamenn voru handteknir en áfram er leitað að mönnum sem komust undan með vopnin. Nicolas Maduro sagði að um væri að ræða „hryðjuverkamenn frá Miami og Kólumbíu. Hann hrósaði hernum fyrir skjót viðbrögð. 

Ástandið í Venesúela fer síversnandi. Það sem fyrst var efnahagskrísa, sprottin frá áralangri óstjórn yfirvalda í efnahagsmálum, hefur snúist upp í stjórnarkreppu sem ekki sér fyrir endann á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert