„Rasismi í boði ríkisins“

Franskur áfrýjunardómstóll þyngdi dóm yfir bónda sem var í undirrétti dæmdur til að greiða sekt fyrir að aðstoða flóttamenn yfir landamæri Ítalíu. Var Cédric Herrou dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi í dag.

Dómari við áfrýjunardómstólinn í Aix-en-Provence segir að með refsingunni sé dómstóllinn að vara hann við. Ef hann verði dæmdur að nýju þá megi hann eiga von á því að vera gert að sæta fangelsi.

Cédric Herrou.
Cédric Herrou. AFP

Herrou var viðstaddur dómsuppkvaðninguna í morgun og um 30 aðgerðarsinnar fylgdust með.

„Þeir verða bara að senda mig í fangelsi. Það er einfaldara,“ segir Herrou. „Ég mun halda baráttunni áfram úr fangelsinu.“

Herrou ætlar að áfrýja niðurstöðunni til hæstaréttar enda segir hann það hlutverk hins almenna borgara í lýðræðisríki að grípa til aðgerða ef ríkið bregst.

Cédric Herrou ræktar ólífur og er framarlega í flokki hreyfingar sem nefnist Roya Citoyenne og hefur það að markmiði að aðstoða flóttafólk og aðra hælisleitendur. 

Í febrúar var honum gert að greiða þrjú þúsund evrur í sekt fyrir að aðstoða flóttamenn yfir landamærin til Frakklands en sýknaður af ákæru fyrir að hafa hýst um 50 hælisleitendur frá Erítreu í yfirgefinni brautarstöð. Áfrýjunardómstóllinn féllst á að sýkna hann af þeirri ákæru.

„Ég vil segja öllum þeim fjölskyldum sem ég hef veitt atstoð að ég sé ekki eftir neinu. Ég gerði það með ánægju. Ef innflytjendurnir kæmu frá Norður-Evrópu þá myndu dómstólar ekki bregðast svona við. Þetta er rasismi í boði ríkisins,“ segir Herrou. 

Cédric Herrou fyrir utan dómshúsið í morgun.
Cédric Herrou fyrir utan dómshúsið í morgun. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert