Gerðu húsleit hjá fyrrverandi ráðgjafa Trump

Paul Manafort (fyrir miðri mynd) ræðir við Ben Carson á …
Paul Manafort (fyrir miðri mynd) ræðir við Ben Carson á leið til fundar við Donald Trump. AFP

Bandaríska alríkislögreglan, FBI, gerði húsleit eldsnemma að morgni á heimili fyrrverandi kosningaráðgjafa Donalds Trump. Húsleitin var gerð þann 26. júlí á heimili Paul Manafort í Virginíu og var lagt hald á ýmis gögn, að því er fram kemur í frétt Washington Post. Degi áður en húnsleitin fór fram hafði Manafort sjálfviljugur mætt fyrir leyniþjónustunefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings. 

Manafort hætti sem kosningaráðgjafi Trumps áður en til forsetakosninganna kom. Hann hafði þá þegar verið ásakaður um tengsl við Rússa. 

FBI rannsakar nú tengsl ýmissa aðila er tengjast Trump og hans kosningabaráttu vegna gruns um tengsl þeirra við Rússa sem svo aftur eru grunaðir um að hafa blandað sér í kosningabaráttuna með ólögmætum hætti. 

Í frétt Washington Post segir að húsleitarheimildin hafi verið víðtæk og því hafi Robert S. Mueller, sem fer fyrir rannsókninni fyrir hönd FBI, farið af vettvangi með margvísleg gögn. Talsmaður Manafort staðfestir að húsleitin hafi farið fram og að Manafort hafi verið samvinnuþýður. 

Manafort hafði áður lagt fram gögn fyrir þingnefndina af fúsum og frjálsum vilja. Í frétt Washington Post segir að mögulega hafi FBI talið að Manafort hafi haldið eftir einhverjum gögnum og því hafi húsleitin verið gerð degi eftir að hann kom fyrir þingnefndina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert