Hví Gvam?

Ferðaþjónusta er stærsta atvinnugreinin á Guam. Þangað koma ferðamenn til …
Ferðaþjónusta er stærsta atvinnugreinin á Guam. Þangað koma ferðamenn til að njóta sólar og strandlífs. Um þriðjungur eyjarinnar er helgaður bandaríska hernum. AFP

Kyrrahafseyjan Guam, stundum kölluð Gvam á íslensku, er á allra vörum í dag eftir að Norður-Kóreumenn hótuðu að gera þar árás. Eyjaskeggjar eru vanir slíkum hótunum og kippa sér fæstir upp við þær núorðið. Hins vegar hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti verið óvenju herskár í ummælum sínum um Norður-Kóreu síðustu klukkustundirnar og því er ekki skrítið að íbúar Guam séu varari um sig en áður.

En hvers vegna hótar Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, að skjóta eldflaugum til þessa litla eyríkis þegar forseti Bandaríkjanna segir honum að halda sig á mottunni ellegar fái hann að finna verulega til tevatnsins?

Skýringin er í raun einföld.Guam er bandarískt yfirráðasvæði. Eyjan er í um 3.500 kílómetra fjarlægð frá Norður-Kóreu og árás á hana myndi jafngilda árás á Bandaríkin. Eyjan er úti í miðju Vestur-Kyrrahafi og mun nær Norður-Kóreu en nokkuð ríki Bandaríkjanna. Nálægð Guam við Kína, Japan, Filippseyjar og Kóreuskaga hefur löngum gert hana hernaðarlega mjög mikilvæga fyrir Bandaríkin. Þar hafa þau komið upp herstöðvum og á henni dvelja að jafnaði þúsundir bandarískra hermanna.

Suðurkóreskur hermaður gengur fram hjá sjónvarpsskjá þar sem fréttamaður er …
Suðurkóreskur hermaður gengur fram hjá sjónvarpsskjá þar sem fréttamaður er að útskýra hótanir Norður-Kóreu gagnvart Bandaríkjunum. Guam er í um 3.500 kílómetra fjarlægð frá höfuðborg Norður-Kóreu. AFP

En hver er saga þessarar smáu eyju og hvers vegna féll hún í hendur Bandaríkjamanna?

Spánverjar slógu eign sinni á Guam árið 1565. Það var ekki fyrr en árið 1898 sem hún varð bandarískt yfirráðasvæði. Japanar hrifsuðu svo völdin á eyjunni til sín í rúmlega tvö ár í síðari heimsstyrjöldinni en Bandaríkjamenn náðu stjórninni aftur eftir harða bardaga árið 1944. Árið 1950 voru yfirráð Bandaríkjanna svo tryggð með lögum frá þinginu. 

Guam er með takmarkaða sjálfsstjórn. Íbúarnir velja sér sjálfir ríkisstjóra og löggjafarþing og einnig eiga íbúarnir áheyrnarfulltrúa í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Íbúarnir hafa ekki rétt til að kjósa forseta Bandaríkjanna og greiða ekki skatta tilbandaríska ríkisins. Þeir verða þó sjálfkrafa bandarískir ríkisborgarar við fæðingu.

Herinn vill stækka umráðasvæðið

Umsvif Bandaríkjahers eru mikil á Guam. Þar er bæði loftherinn og sjóherinn með bækistöðvar og var eyjan mikilvæg í stríðinu í Víetnam. Í raun eru umsvifin svo mikil að nú vill herinn stækka umráðasvæði sitt á eyjunni. Hann hefur nú þegar yfir að ráða um 30% landsvæðisins en hefur óskað eftir meira rými, sérstaklega í ljósi þess að hann vill færa til hermenn sína í þessum heimshluta og flytja þúsundir landgönguliða flotans frá Okinawa í Japan til Guam. Þá er einnig vilji til þess að flytja bandaríska hermenn frá Suður-Kóreu til Kyrrahafseyjunnar.

Á eyjunni er eldflaugavarnarkerfi, hið svokallaða THAAD (Terminal High Altitude Area Defense) sem hefur það hlutverk að skjóta niður flugskeyti „óvinanna“.

Í síðasta mánuði tóku tvær sprengjuvélar á loft frá Guam og flugu yfir Kóreuskaga til að sýna mátt sinn eftir að Norður-Kóreumenn menn gerðu eldflaugatilraunir sem hafa farið mjög svo fyrir brjóstið á stjórnvöldum í Bandaríkjunum. 

Hóta að gera eyjuna „óvirka“

Norðurkóreski herinn hefur einmitt sagt að herstöðvar Bandaríkjamann á Guam verði skotmarkið komi til árásar. Hann hefur hótað því að gera eyjuna „óvirka“ og nota til þess flugskeyti (eldflaugar) sem hann gerði tilraunir með í maí síðastliðnum).

Í frétt NBC-fréttastofunnar um ástandið á Guam segir að íbúarnir hafi sumir hverjir mótmælt veru Bandaríkjahers á eyjunni en flestir gera sér þó grein fyrir efnahagslegu mikilvægi hersins þar. Þó er það ferðaþjónustan sem halar inn mestum tekjum fyrir eyjaskeggja. 

Talið er að Guam hafi fyrst byggst fyrir um 4.000 árum af forfeðrum Kamorróa sem enn í dag eru fjölmennasta þjóðarbrotið á eyjunni. 

Íbúarnir eru aðeins um 160 þúsund. Höfuðborgin heitir Hagatna og stærsta borgin Dededo. 

Í gegnum tíðina hafa verið gerðar tilraunir til meiri sjálfsstjórnar á eyjunni en þær hafa ekki gengið eftir af ýmsum ástæðum. Á níunda áratugnum sóttu íbúarnir það fast að fá ríkjasamband við Bandaríkin, þ.e. sömu stöðu og Puerto Rico, en þær viðræður runnu út í sandinn.

Engin merki um stríð

Guam er núna miðdepill deilna Norður-Kóreu og Bandaríkjanna þó að eyjaskeggjar sjálfir hafi engu um þær ráðið. Ríkisstjóri og þingmenn eyjunnar hafa reynt að róa íbúana og segja að ekkert útlit sé fyrir að stríð sé að bresta á eða að árás sé í uppsiglingu.

Þúsundir bandarískra hermanna eru á eyjunni Guam í Kyrrahafi á …
Þúsundir bandarískra hermanna eru á eyjunni Guam í Kyrrahafi á hverjum tíma. Bækistöð flughersins þar er er stór. AFP

En sumum finnst nú komið annað hljóð í strokkinn, þeir Trump og Kim hafa vissulega ekki sparað stóru orðin. „Þó að við höfum heyrt svona hótanir áður þá tek ég þær mjög alvarlega og mun halda áfram að vinna að því með varnarmálaráðuneytinu að tryggja öryggi Guam og íbúa hennar,“ sagði þingkonan Madeleine Z. Bordallo í yfirlýsingu. Hún hvatti Donald Trump til þess að gera sitt til að draga úr spennunni á milli Bandaríkjanna og Norður-Kóreu í stað þess að auka hana og sagði að ummæli hans upp á síðkastið væru ekki hjálpleg í þeim efnum. Hann hefði ekki enn lagt skýrar línur um hvernig hann ætlaði að takast á við hina vaxandi ógn sem steðjaði frá Norður-Kóreu. 

Vopnabúrið öflugt

Í morgun hélt Trump uppteknum hætti og benti á mikinn hernaðarmátt Bandaríkjanna. Hann sagði að kjarnorkuvopnabú landsins væri öflugra og meira en nokkru sinni í sögunni.

Rex Tillerson utanríkisráðherra hefur reynt að lægja öldurnar. Hann hefur viljað ræða málin við Norður-Kóreu fremur en að skiptast á hótunum í fjölmiðlum. Eftir að Trump hótaði Norður-Kóreumönnum eldi og brennisteini í gær hefur Tillerson þó varið ummæli forsetans og sagt hann hafa sent skýr skilaboð með þeim. Hann reyndi þó einnig að full­vissa Banda­ríkja­menn um að stríð vofði ekki yfir. „Ég hef eng­ar upp­lýs­ing­ar um að ástandið hafi breyst til muna á síðasta sól­ar­hringn­um,“ sagði hann og bætti við að Bandaríkjamenn gætu „sofið rólegir á nóttunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert