Íbúar Kyrrahafseyjunnar ókyrrast

Hermaður í Suður-Kóreu gengur fram hjá sjónvarpsskjá þar sem fréttamaður …
Hermaður í Suður-Kóreu gengur fram hjá sjónvarpsskjá þar sem fréttamaður er að útskýra hótanir Norður-Kóreumanna um árás á Guam. AFP

Stjórnvöld í Norður-Kóreu halda því fram að þau búi yfir það langdrægum eldflaugum að þau gætu gert árás á Bandaríkin. Í kjölfar ummæla Donalds Trump Bandaríkjaforseta, þar sem hann hótaði Norður-Kóreu eldi og brennisteini, skiptu stjórnvöld þar í landi um gír og segjast nú íhuga árás á Kyrrahafseyjuna Guam. Eyjan er undir yfirráðum Bandaríkjamanna og er mun líklegra skotmark en meginland Norður-Ameríku. Trump hélt hótunum sínum áfram í dag og sagði að kjarnorkuvopnabúr Bandaríkjanna væri öflugra en nokkru sinni.

Guam er hernaðarlega mjög mikilvæg fyrir Bandaríkin. Þar eru herstöðvar, stórt vopnabúr og um 6.000 hermenn og um 165 þúsund óbreyttir borgarar. Norður-Kóreumenn vita að ráðist þeir á Guam jafnist það við árás á Bandaríkin. 

Stjórnvöld á Guam segja ekkert að óttast og hafa sagt íbúum eyjunnar að halda ró sinni. 

Engu að síður eru ekki allir í rónni. Ferðamennska er stór atvinnugrein á Guam og eigendur hótela segja suma hverja óttaslegna. „Já, auðvitað er fólk áhyggjufullt,“ segir Adele, sem rekur hótel á Guam. „Það er ógnvekjandi að Norður-Kórea sé að hóta Guam.“

„Við erum í rauninni milli steins og sleggju,“ segir Chris Barnett, grínisti búsettur á Guam. Hann segir að margir telji að Trump sé til alls líklegur og gæti verið sá sem að endingu „ýtir á hnappinn.“

Strönd Hagatna, höfuðborgar Guam, er vinsæll viðkomustaður ferðamanna. Íbúar á …
Strönd Hagatna, höfuðborgar Guam, er vinsæll viðkomustaður ferðamanna. Íbúar á eyjunni eru vanir hótunum Norður-Kóreumanna en mörgum þykja þær heldur ákveðnari nú en áður. AFP

Rekstrarstjórinn Adele segist ætla að búa sig undir það versta. „Við eigum að vera undirbúin fyrir hvað sem gerist,“ segir hún í samtali við BBC. Hún segist ætla að hamstra mat og að aðrir ætli að gera slíkt hið sama. „Við fylgjumst vel með fréttum og vonum að herinn muni hjálpa okkur.“

Isa Baza, fréttamaður á sjónvarpsstöð á Guam, segir að yfirvöld telji að það myndi taka um 14-15 mínútur fyrir flugskeyti að fara frá Norður-Kóreu til Guam. „Það er því ekki mikill tími til að svara fyrir sig,“ segir hún í samtali við BBC. Hún segir að stjórnvöld ætli að senda út viðvörun í gegnum almannavarnakerfi landsins ef allt fari á versta veg.

Áður nefnt Guam sem skotmark

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa nefnt Guam sem mögulegt skotmark. Bandaríkjaher er einnig með herstöðvar í Suður-Kóreu og í Japan og árásir á þær einnig verið nefndar áður. Fyrir utan þau lönd hefur Kyrrahafseyjan verið nefnd til sögunnar, vilji Norður-Kórea gera árás á Bandaríkin.

Madeleine Z. Bordallo, þingkona á Guam, hefur gagnrýnt Trump fyrir yfirlýsingar sínar sem hún segir hafa aukið ennfrekar á spennuna á svæðinu. Margir eyjaskeggjar deila áhyggjum hennar. Aðrir láta þær hins vegar sem vind um eyru þjóta. 

„Þetta er ekkert stórmál,“ segir Cathleen Viray sem vinnur á hóteli á eyjunni. Hún segir slíkar hótanir hafa verið settar fram áður og að flestir séu orðnir vanir þeim. Leiðsögumaður á Guam segir í samtali við BBC að hann sé ekki mjög áhyggjufullur en að vissulega hafi hann skilning á því að aðrir séu það. „Það er nú einu sinni verið að hóta kjarnorkuárás.“

Bandarísk orrustuflugvél undirbýr ferð frá Texas til Kyrrahafseyjunnar Guam.
Bandarísk orrustuflugvél undirbýr ferð frá Texas til Kyrrahafseyjunnar Guam. AFP

Trump lét hin hörðu ummæli sín um Norður-Kóreu falla í gær. Hann sagði að ef Norður-Kórea myndi setja fram frekari hótanir gagnvart Bandaríkjunum yrði þeim mætti með meiri hörku en nokkru sinni hefði sést.

Langt gengið

Í fréttaskýringu CNN um málið segir að Trump gangi lengra í hótunum sínum en nokkur annar Bandaríkjaforseti hafi gert. Þá ganga ummæli hans þvert á það sem utanríkisráðherrann Rex Tillerson hefur sagt en hann hefur ítrekað sagt að viðræður milli ríkjanna séu farsælasta lausnin til að draga úr spennu þeirra á milli. Tilleson varði þó ummæli forstans í gær og sagði að hann hefði sent afgerandi skilaboð og talað á tungumáli sem Kim Jong-un skildi.

Hann reyndi þó einnig að fullvissa Bandaríkjamenn að stríð vofði ekki yfir. „Ég hef engar upplýsingar um að ástandið hafi breyst til muna á síðasta sólarhringnum.“

Trump hélt svo hótunum sínum áfram á Twitter í morgun og sagði, eins að ofan er rakið, að kjarnorkuvopnabúr Bandaríkjanna væri öflugra en nokkru sinni. Í næstu færslu sinni mildaði hann aðeins tóninn og sagði: „Vonandi þurfum við aldrei að nota þessa [kjarn]orku en það verður aldrei sá tími að við erum ekki öflugasta þjóð heims.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert