Íbúar Gvam við öllu búnir

Ríkisstjóri Gvam segir að eyjan sé vel undir það búin að mæta árásum Norður-Kóreu. Segir hann að þar megi þakka uppbyggingu innviða ríkis sem hefur staðist jarðskjálfta og fellibyli. Ummælin lét hann falla eftir að yfirvöld í Pjongjang lýstu því nákævmlega hvernig árás á eyjuna yrði háttað.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur varað einræðisstjórnina í Norður-Kóreu við því að ef hún haldi áfram að ógna Bandaríkjunum verði því svarað með „eldi og ofsabræði“. Nokkrum klukkustundum síðar svaraði einræðisstjórnin í Pjongjang með nýrri hótun, í þetta skipti um að gera árás á Gvam, bandaríska eyju á Kyrrahafi. Spurningin er hvort þeir Donald Trump og Kim Jong-un, harðstjóri í Pjongjang, standi við stóru orðin.

„Norður-Kórea ætti ekki að hafa í frammi fleiri hótanir við Bandaríkin. Þeim verður svarað með eldi og ofsabræði sem heimurinn hefur aldrei áður séð,“ sagði Trump við fréttamenn í golfklúbbi sínum í New Jersey. Áður höfðu ráðamennirnir í Norður-Kóreu oft hótað því að beita kjarnavopnum til að tortíma Bandaríkjunum í „eldhafi“.

Viðvörun Trumps þótti minna á yfirlýsingu Harry S. Truman árið 1945 þegar hann krafðist þess að Japanar gæfust upp eftir að hann hafði fyrirskipað kjarnorkuárásina á Hiroshima. Truman varaði Japana við því að ef þeir gæfust ekki upp ættu þeir yfir höfði sér „regn tortímingar sem hefur aldrei áður sést í heiminum“. Ekki er þó ljóst hvort Trump hafði viðvörun Trumans í huga og hvort hann hafi ætlað að ýja að kjarnorkuárás á Norður-Kóreu.

 Innantóm orð?

Sagnfræðingar og stjórnmálaskýrendur í Bandaríkjunum segja að viðvörun Trumps eigi sér fá fordæmi í sögu bandaríska forsetaembættisins. Bent hefur verið á að Bill Clinton sagði í ræðu á hlutlausa beltinu milli Kóreuríkjanna árið 1993 að ef einræðisstjórnin í Norður-Kóreu beitti kjarnavopnum myndi það leiða til „endaloka landsins“. Trump virðist þó hafa gengið lengra með því að ýja að því að einræðisstjórnin yrði beitt hervaldi héldi hún áfram að hafa í hótunum við Bandaríkin.

Forsetinn var gagnrýndur fyrir að tala óvarlega um Norður-Kóreumálið og grafa undan tilraunum utaníkisráðherra og varnarmálaráðherra Bandaríkjanna til að draga úr spennunni á Kóreuskaga. Stephen Collinson, stjórnmálaskýrandi CNN, segir að Trump hafi tekið mikla áhættu með hótun sinni. „Næst þegar Kim hefur í frammi einhvers konar hótun við Bandaríkin eða samstarfsríki þeirra verður Trump strax undir miklum þrýstingi um að láta Norður-Kóreu gjalda þess – ellegar hætta á það grafi undan valdi hans þegar orð hans reynast innantóm.“

Collinson og fleiri stjórnmálaskýrendur hafa einnig gagnrýnt Trump fyrir að styrkja stöðu Kim Jong-un í Norður-Kóreu með því að ýja að hernaði gegn landinu. Einræðisstjórnin geti haldið því fram að hótun forsetans staðfesti áróður hennar um að Bandaríkin séu staðráðin í því að hefja stríð gegn Norður-Kóreu og tortíma landinu. Hótunin geti því auðveldað stjórninni að þjappa þjóðinni saman á bak við einræðisherrann. Stjórn hans hefur haldið því fram að landið þurfi að framleiða kjarnavopn til að geta varist árásum Bandaríkjahers.

Nokkrir stjórnmálaskýrendur vöruðu einnig við því að beinar eða óbeinar hótanir um hernað gegn Norður-Kóreu til að koma í veg fyrir árásir á Bandaríkin og Suður-Kóreu geti haft þveröfug áhrif og leitt til átaka á Kóreuskaga.

Aðrir fréttaskýrendur bentu á að innantómar hótanir af hálfu forsetans gætu grafið undan trúverðugleika Bandaríkjanna meðal bandamanna og óvina þeirra.

Repúblikaninn John McCain, þingmaður í öldungadeildinni, tók undir viðvaranir þeirra sem hafa gagnrýnt orð forsetans. „Ég er ekki viss um að slík gífuryrði séu hjálpleg,“ sagði hann í útvarpsviðtali. „Ég andmæli orðum forsetans vegna þess að menn verða að vera vissir um að þeir geti gert það sem þeir segjast ætla að gera.“

Nálgast markmiðið

Spennan á Kóreuskaga hefur magnast frá því að Norður-Kóreumenn skutu langdrægri eldflaug í tilraunaskyni 4. júlí. Þeir skutu síðan annarri eldflaug 28. júlí og hún var af tegund sem sérfræðingar telja að gæti hugsanlega dregið til borga á meginlandi Bandaríkjanna. Í nýlegri skýrslu leyniþjónustunnar DIA, sem heyrir undir varnarmálaráðuneytið í Washington, kemur fram að talið sé að Norður-Kóreumenn hafi þróað kjarnaodd sem sé nógu lítill til að hægt væri að beita honum í árás með eldflaug. Flest bendir þó til þess að þeim hafi ekki enn tekist að þróa langdræga eldflaug sem gæti komist aftur inn í lofthjúp jarðar án þess að splundrast. Sérfræðinga greinir á um hversu langt sé í það að Norður-Kóreumenn eignist kjarnavopn, sem hægt væri að skjóta á bandarískar borgir, en þeir eru á einu máli um að einræðisstjórnin hafi tekið stærri skref í átt að því markmiði á síðustu misserum en búist hafði verið við.

 Tæki til að sameina Kóreuríkin?

Talið er að meginástæða þess að Norður-Kóreumenn eru staðráðnir í því að framleiða kjarnavopn sé sú að þeir telji þau tryggja að Bandaríkjamenn reyni ekki að steypa einræðisstjórninni af stóli.

Ráðamennirnir í Pjongjang óttast að ef þeir eignist ekki öflug kjarnavopn, sem hægt væri að skjóta á Bandaríkin, bíði þeirra sömu örlög og Saddams Hussein og Muammars Gaddafi sem reyndu báðir án árangurs að verða sér úti um kjarnavopn. Þeir voru báðir drepnir; Saddam var hengdur árið 2006 eftir innrásina í Írak og Gaddafi í uppreisn í október 2011.

Hugsanlegt er þó að Kim Jong-un líti ekki aðeins á kjarnavopnin sem tæki til að tryggja að stjórnin haldi velli, heldur einnig til að sameina Kóreuríkin tvö.

Líklegt er að eitt af markmiðunum með kjarnavopnunum sé að koma í veg fyrir að Bandaríkjaher komi Suður-Kóreu til varnar ef einræðisstjórnin fyrirskipar innrás í landið, að mati Christophers R. Hill, fyrrverandi aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna.

The Wall Street Journal hefur eftir Hill að það væri rangt að ganga út frá því að markmiðið með kjarnavopnunum sé aðeins að tryggja óbreytt ástand á Kóreuskaga. Hann telur að Norður-Kóreustjórn sé staðráðin í að þróa kjarnavopn sem hægt væri að skjóta á meginland Bandaríkjanna og ætli síðan að gera innrás með hefðbundnum vopnum í Suður-Kóreu. Einræðisstjórnin geti þá hótað kjarnorkuárás á borg í Bandaríkjunum ef her landsins komi Suður-Kóreu til hjálpar. Bandaríkjastjórn myndi þá þurfa að velja á milli þess að tryggja öryggi bandarískra borga og þess að verja Suður-Kóreu.

Talið er að Kim Jong-un eigi sér þann draum að tryggja sér sess í sögunni með því að sameina Kóreuríkin undir sinni stjórn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert