Sjö hjálparstarfsmenn skotnir til bana

Hjálparstarfsmennirnir fundust látnir í morgun.
Hjálparstarfsmennirnir fundust látnir í morgun. AFP

Óþekktir árásarmenn skutu til bana sjö meðlimi hjálparsamtakanna Hvítu hjálmanna í Sýrlandi snemma í morgun í áhlaupi á bækistöðvar þeirra í norðvesturhluta Sýrlands. Bækistöðvarnar eru staðsettar í bænum á Sarmin sem er á valdi hryðjuverkasamtakanna Ríki íslams. AFP fréttastofan greinir frá.

Í tilkynningu frá hjálparsamtökunum segir að svo virðist sem bækistöðvarnar hafi verið skotmark árásarmannanna. Sjálfboðaliðarnir voru allir skotnir í höfuðið en kollegar þeirra fundu þá látna snemma í morgun þegar vaktaskipti áttu að eiga sér stað. Ekki er enn ljóst hvort tilgangurinn árásinnar hafi verið pólitískur eða annars eðlis.

Kollegar þeirra sem létust bera þá til grafar.
Kollegar þeirra sem létust bera þá til grafar. AFP

Hjálparsamtökin Hvítu hjálmarnir voru stofnuð árið 2013 og starfa á þeim svæðum í Sýrlandi sem eru á valdi vígamanna. Tilgangur þeirra er að aðstoða almenna borgara og hafa samtökin vakið mikla athygli fyrir starf sitt. Þau voru til að mynda tilnefnd til friðarverðlauna Nóbels árið 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert