Tjaldborg heimilislausra hverfur

Flestir fara sjálfviljugir.
Flestir fara sjálfviljugir. AFP

Tjaldborg heimilislausra í Sydney í Ástralíu fyrir utan seðlabankann, í hjarta borginnar, minnkar nú jafnt og þétt eftir að ný lög voru sett í vikunni sem heimila lögreglunni að fjarlægja tjöldin af svæðinu. Lögin tóku gildi í gær og síðan þá hefur fólk verið að tínast í burtu.

Um 50 manns hafa hafst við í tjöldunum í um hálft ár. Þegar einhverjir hafa horfið á braut hafa aðrir komið í staðinn. Nú er tjaldborgin hins vegar að liðast í sundur. Flestir eru að fara sjálfviljugir og hefur lögregla því ekki þurft að beita valdi við að fjarlægja fólkið.

Tjaldborgin hefur staðið á svæðinu í um hálft ár.
Tjaldborgin hefur staðið á svæðinu í um hálft ár. AFP

Fulltrúar borgarinnar og ríkistjórnarinnar hafa deilt um það mánuðum saman hver beri ábyrgð á vandanum og hvernig eigi að taka á honum. Svæðið sem um heimilislausir lögðu undir sig kall­ast Mart­in Place og þar standa glæsi­leg­ar skrif­stofu­bygg­ing­ar og versl­an­ir í fínni kant­in­um.

Lanz Priestly, sem hafði verið skipaður einhvers konar borgarstjóri tjaldborgarinnar, sagði í samtali við BBC að sumir hefði ekki í nein hús að venda. Einhverjir gætu fengið að gista hjá vinum eða tjalda í görðum þeirra, en margir gætu ekkert farið.

Margir hafa ekki í nein hús að venda.
Margir hafa ekki í nein hús að venda. AFP

Yfirvöld hafa sagt að mikilvægt sé að sporna við því að heimilislausum fjölgi og benda á að ýmislegt hafi verið gert til að aðstoða þá sem eru verst staddir. Það sé hins vegar ekki hægt að líða það að pólitískir mótmælendur nýti sér neyð heimilislausra til að vekja athygli á málsstað sínum.

Priestly, hinn ókrýndi borgarstjóri tjaldborgarinnar, segir yfirvöld hins vegar ekki taka málefni heimilislausra alvarlega. Þau sjái ekki fólkið sem viðhefst í tjöldunum, aðeins tjöldin sjálf.

Talið er að um 105 þúsund séu heimilislausir í Ástralíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert