Trump valdi ekki aukinni spennu

Xi Jinping, forseti Kína.
Xi Jinping, forseti Kína. AFP

Xi Jinping, forseti Kína, hefur hvatt Donald Trump Bandaríkjaforseta til að komast hjá „orðum og aðgerðum“ sem geta valdið aukinni spennu í málefnum Norður-Kóreu.

Trump og Norður-Kóra hafa skipst á hótunum að undanförnu og skemmst er að minnast þess þegar Trump hótaði að láta rigna „eldi og brennisteini“ yfir landið.

Kínverjar, sem er eina stórveldið sem hefur stutt Norður-Kóreu, hvetur til stillingar í deilunni.

Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu kemur fram að Bandaríkin og Kína hafi samþykkt að Norður-Kórea verði að hætta „ögrandi og stigmagnandi hegðun“.

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Samkvæmt kínverskum ríkisfjölmiðlum sagði Jinping við Trump á símafundi að „allir viðkomandi aðilar“ verði að komast hjá „orðum og aðgerðum“ sem geta valdið aukinni spennu, að því er BBC greindi frá.

Hann lagði einnig áherslu á að Kínverjar og Bandaríkjamenn deila sömu hagsmunum sem fela í sér fækkun kjarnorkuvopna og að halda friði á Kóreuskaganum.

Trump hefur áður lýst yfir óánægju sinni með aðild Kínverja að málefnum Norður-Kóreu og sagt að ríkið geti staðið sig mun betur í þeim efnum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert