„Yfirþyrmandi einsemd“ í N-Kóreu

Kanadíski presturinn við heimkomuna.
Kanadíski presturinn við heimkomuna. AFP

Kanadískur prestur sem nýlega var sleppt lausum úr haldi Norður-Kóreumanna upplifði „yfirþyrmandi einsemd“ við erfiðar aðstæður á meðan hann var í fangabúðum í tvö og hálft ár.

Hyeon Soo Lim, 62 ára, var fundinn sekur í janúar 2015 um að hafa tekið þátt í því með Bandaríkjamönnum og Suður-Kóreumönnum að dreifa áróðri um mannréttindamál í Norður-Kóreu og sverta ímynd landsins.

AFP

Maðurinn var leystur úr haldi af heilsufarsástæðum fyrr í mánuðinum.

„Frá fyrsta degi sem ég var í haldi og til þess síðasta borðaði ég 2.757 máltíðir í einangrun, einn með sjálfum mér. Það var erfitt að sjá hvenær og hvernig þessi þrekraun myndi enda,“ sagði Soo Lim.

„Á veturna var ég látinn grafa holur sem voru einn metri í þvermál og eins metra djúpar. Jörðin var frosin. Leðjan var svo hörð að það tók mig tvo daga að grafa eina holu.“

Hann bætti við: „Þetta var ótrúlega erfitt. Efri hluti líkamans svitnaði, ég var kalinn á tánum og fingrum. Ég vann einnig í kolageymslu við að brjóta í sundur kol.“

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert