„Sú bölvun er ég“

Peter Madsen er 46 ára frumkvöðull. Kim Wall er þrítugur, …
Peter Madsen er 46 ára frumkvöðull. Kim Wall er þrítugur, sænskur blaðamaður.

„Allt er mögulegt. Við útilokum ekki að hún hafi til dæmis verið flutt til Þýskalands,“ segir danski lögreglumaðurinn Henrik Brix um hvarf sænsku blaðakonunnar Kim Wall. Peter Madsen er í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa valdið dauða hennar en kafbátur hans, sem Wall var gestur í, sökk á föstudag. Þar sem ekkert lík hefur enn fundist er því verið að kanna hvort til greina komi að hún hafi verið flutt um borð í annan bát úti fyrir Danmörku eða jafnvel komið í land á erlendri grundu, til dæmis Þýskalandi. Þá er heldur ekki búið að útiloka að hún hafi verið flutt til Svíþjóðar. Eftir hádegi í dag kom fram í sænskum fjölmiðlum að lögreglan teldi ljóst að kafbátnum hafi verið sökkt vísvitandi. Þá er nú verið að fara yfir gögn úr tækjum kafbátsins til að komast að því hvaða leið honum var siglt og hvert.

En hver er þessi Madsen og hver er atburðarás málsins þar til nú?

„Það hvílir bölvun á Nautilus. Sú bölvun er ég. Það mun ekki friður ríkja um Nautilus svo lengi sem ég lifi.“

Á þessari mynd, sem tekin var á fimmtudag, er blaðakonan …
Á þessari mynd, sem tekin var á fimmtudag, er blaðakonan Kim Wall sögð sjást í kafbátnum Nautilus. AFP

Þetta skrifaði danski frumkvöðulinn Peter Madsen í sms-skilaboðum fyrir tveimur árum til stjórnarmanna í félagi sem þá átti kafbátinn Nautilus. Deilt var um eignarhald á bátnum sem Madsen átti hugmyndina að og forgöngu um að smíða en var þó ekki í einkaeigu hans fyrst í stað. Kafbáturinn er nú talinn vera vettvangur glæps sem líkist helst söguþræði í skáldsögu. Enn er langt frá því að öll kurl séu komin til grafar í málinu því þó að Madsen hafi verið ákærður fyrir manndráp af gáleysi hefur lík sænsku blaðakonunnar Kim Wall, sem fór í siglingu með Madsen í bátnum á fimmtudagskvöld, enn ekki fundist. Lögreglan sagði svo í morgun við danska blaðið Expressen að ekki væri hægt að útiloka að Wall hefði verið flutt til útlanda, til dæmis til Þýskalands.

Hvetjandi „brjálæðingur“

Hann fer ekki eftir reglum. Hann er „brjálaður“ en um leið veitir hann öðrum innblástur og hvatningu. Þannig lýsa vinir og kunningjar Madsen sem nú situr í gæsluvarðhaldi, grunaður um að hafa valdið dauða hinnar þrítugu Wall. Þó að kafbáturinn Nautilus hafi lengi verið kenndur við hann, eða allt frá því hann var byggður árið 2008, var hann til að byrja með eign Copenhagen Suborbitals sem árið 2014 afsalaði sér eignarhaldinu til félagsins UC3 Nautilus. Það félag átti, að því er fram kemur um málið í fréttaskýringu Ekstrabladet, að gera bátinn upp og selja hann. Madsen, eða „Rakettu-Madsen“ eins og hann er oft kallaður, var heiðursfélagi í UC3 Nautilus. Ári eftir að félagið var stofnað komu hins vegar upp deilur um hver væri raunverulegur eigandi bátsins. Stjórn félagsins og Madsen tókust á og í þeim deilum sendi Madsen hin harðorðu sms-skilaboð sem hér að ofan er getið. Hann bætti svo við og skrifaði: „Látið hann í friði. Ekki taka hann bara af því að þið getið það. Það er ekki hollt fyrir ykkur. Ykkur mun aldrei líða vel í þessum bát.“

Stjórn félagsins ákvað í kjölfarið að láta kafbátinn af hendi. Hún sagðist ekki vilja deila við Peter Madsen.

Dularfullt mannshvarf

Hvarf blaðakonunnar Kim Wall hefur verið forsíðuefni flestra dagblaða og netmiðla í Skandinavíu og víðar síðustu daga. Málið er enda einstaklega dularfullt þar sem sérvitur frumkvöðull, kafbátur hans og fréttamaður koma við sögu.

Bláa örin sýnir hvar Nautilus sökk á föstudagsmorguninn, suður af …
Bláa örin sýnir hvar Nautilus sökk á föstudagsmorguninn, suður af Kaupmannahöfn. Skjáskot/Google Maps

Peter Madsen er 46 ára gamall. Í morgun tilkynnti lögmaður hans að hann myndi ekki kæra gæsluvarðhaldið sem hann var úrskurðaður í vegna hvarfs Wall. Madsen hafði áður sagst ætla að kæra ákvörðun dómarans. Hann neitar þó enn sök.

Wall fór um borð í Nautilus á fimmtudag þar sem hann lá við höfn við Refshale-eyju í Kaupmannahöfn. Var tilgangur heimsóknarinnar að skrifa grein um kafbátinn. Báturinn lagði svo úr höfn um klukkan 19 um kvöldið og í fréttum danskra og sænskra fjölmiðla segir að til hafi staðið að hann kæmi aftur til hafnar það sama kvöld. Er það m.a. haft eftir kærasta Wall.

En báturinn snéri ekki aftur til hafnarinnar þetta kvöld og ekkert samband náðist við hann fyrr en morguninn eftir, fleiri klukkustundum eftir að blaðakonan steig um borð.

Fyrstu skýringar Madsen á hvarfi Wall voru þær að hann hefði sett hana í land við höfnina nokkru eftir að þau lögðu upp í ferð sína. Hann hefur síðar breytt þeim framburði sínum og segir lögreglan að hann hafi nú gefið „aðrar skýringar.“

Ljóslaus á Eyrarsundi

En hvert fór báturinn á fimmtudagskvöld? Ljóst er að aðfaranótt föstudagsins lenti kafbáturinn næstum því í árekstri við flutningaskip á Eyrarsundi, þ.e. milli Danmerkur og Svíþjóðar. Þá voru liðnar tvær klukkustundir frá því að fjölskylda Wall tilkynnti um hvarf hennar.

Þyrlur á sveimi yfir leitarsvæðinu utan við Kaupmannahöfn.
Þyrlur á sveimi yfir leitarsvæðinu utan við Kaupmannahöfn. AFP

Aftonbladet hefur eftir vitni sem var um borð í flutningaskipinu að ljós á kafbátnum hefðu verið slökkt. „Það gerir maður einfaldlega ekki. Sérstaklega á Eyrarsundi þar sem umferð er mikil,“ hefur blaðið eftir sjónarvottinum. „Ég hélt að þarna væri njósnabátur frá Pútín [Rússlandsforseta] en þeir eru nú klárari en svo að hafa kafbátana uppi á yfirborðinu,“ segir sjónarvotturinn ennfremur.

Flutningaskipið sigldi framhjá Nautilus skammt frá Eyrarsundsbrúnni rétt hjá eyjunni Saltholm. Á föstudagsmorguninn sást hann svo við Dorgden-vita. Um svipað leyti náði strandgæslan loks sambandi við Peter Madsen um borð í bátnum sem sagði að ferðin hefði dregist á langinn vegna „tæknilegra vandamála“ um borð. Fjarskiptasambandið var slæmt en þó heyrðist Madsen segjast ætla að reyna að sigla bátnum aftur til hafnar. Á þessum tíma var talið að bæði Madsen og Wall væru enn um borð í bátnum. Annað átti eftir að koma á daginn.

Madsen sigldi Nautilus hins vegar ekki í höfn. Honum var þess í stað bjargað úr honum og um borð í vélbát sem átti leið hjá. Þá sagðist hann hafa verið einn í kafbátnum. Skömmu síðar sökk Nautilus niður á sjö metra dýpi á svipuðum slóðum og hann var á er hann lenti næstum því í árekstri við flutningaskipið um nóttina. Madsen steig skömmu síðar á land við Dragør-höfn.

Grunaður um manndráp af gáleysi

Síðdegis á föstudag sendi lögreglan í Kaupmannahöfn svo frá sér tilkynningu þar sem fram kom að Madsen væri grunaður um manndráp og hefði verið ákærður og á laugardag var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald til 5. september. Lögreglan hefur sagt að ákærunni verði mögulega breytt síðar. Enn sé mögulegt að aðrar ástæður liggi að baki hvarfi hennar.

Nautilus var lyft af hafsbotni um helgina og í honum gerð leit að Wall. En ekkert fannst. Leit heldur áfram í sjónum, m.a. á þeim slóðum þar sem báturinn sökk. Leitað er bæði úr lofti og af sjó og taka bæði sænska og danska strandgæslan og fleiri aðilar þátt í leitinni.

Taka skýringum Madsen með fyrirvara

Fram hefur komið að lögreglan efist um skýringar Madsen um að „tæknileg vandamál“ hafi orsakað það að ferðin sem átti aðeins að taka stutta stund dróst í meira en hálfan sólarhring og endaði með því að báturinn sökk. Þá kom fram í sænskum fjölmiðlum í dag að lögreglan teldi að bátnum hafi verið sökkt vísvitandi.

Nautilus hífður í land eftir að hafa verið lyft af …
Nautilus hífður í land eftir að hafa verið lyft af hafsbotni. AFP

Eins og fyrr segir hefur ekkert lík fundist. Lögreglan hefur ekki gefið upp hvaða vísbendingar aðrar en hina furðulegu atburðarás hún styðjist við við rannsókn málsins.

Hins vegar hefur komið fram í sænskum fjölmiðlum að Madsen hafi átt stefnumót við vin sinn á föstudag. Ætluðu þeir félagar að sigla á Nautilus síðdegis þann dag til Borgundarhólms. Vinurinn fékk hins vegar sms-skilaboð frá Madsen á fimmtudagskvöld þar sem ferðinni var aflýst. Vinurinn spurði Madsen hvers vegna þeir myndu ekki fara til Borgundarhólms en við þeim skilaboðum fékk hann aldrei neitt svar. Aðrir sem vissu af þessari fyrirhugðu ferð segja að Madsen hafi aflýst henni fyrr. Einn vinur hans fullyrðir að það hafi hann gert á þriðjudag og annar segir hann hafa gert það á miðvikudag.

Enn er því allt á huldu hvað gerðist um borð í kafbátnum og hver örlög Wall urðu. 

Leitin heldur áfram. Þá fór lögreglan um borð í Nautilus í morgun í þeirri von að finna einhverjar vísbendingar um hvað gekk þar á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert