Hinrik prins á sjúkrahúsi

Margrét Þórhildur Danadrottning og Hinrik prins.
Margrét Þórhildur Danadrottning og Hinrik prins. Ljósmynd/Wikipedia

Hinrik prins, eiginmaður Margrétar Þórhildar Danadrottningar, hefur verið lagður inn á sjúkrahús í Kaupmannahöfn. Hinrik gekkst undir aðgerð um miðjan júlí. Hann er með verki í hægri fæti og í tilkynningu frá konungshöllinni segir að það sé ástæðan fyrir því að hann hefur nú verið lagður inn á sjúkrahús.

Í tilkynningunni segir að Hinrik hafi verið lagður inn í gær. Hann fær nú lyfjameðferð en ekki er talin þörf á frekari aðgerð vegna verkjanna. 

Í frétt dönsku sjónvarpsstöðvarinnar TV2 segir að prinsinn, sem er 83 ára, hafi gengist undir aðgerð á fæti á sjúkrahúsi í Árósum í júlí vegna sýkingar. Hinrik dvaldi á sjúkrahúsinu í viku eftir aðgerðina og missti þar af leiðandi af fjölskyldusamkomu í Gråsten-höll.

Ár er síðan Hinrik settist í  helgan stein og hætti að sinna opinberum embættisverkum fyrir konungsfjölskylduna. Hann hefur átt við heilsubrest að stríða og er undir stöðugu eftirliti heilbrigðisstarfsfólks.

Fyrir nokkrum dögum komst Hinrik í fréttirnar er hann tilkynnti í viðtali að hann vildi ekki láta jarða sig við hlið Margrétar Þórhildar eiginkonu sinnar. 

Frétt TV2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert