Eigandi kafbátsins kærir ekki gæsluvarðhaldið

Peter Madsen (t.h.) ræðir við lögregluna í Dragør-höfn, suður af …
Peter Madsen (t.h.) ræðir við lögregluna í Dragør-höfn, suður af Kaupmannahöfn á föstudag. Honum hafði þá verið bjargað úr kafbátnum Nautilus og í land. AFP

Kafbátseigandinn Peter Madsen ætlar ekki að kæra gæsluvarðhald sem hann var úrskurðaður í á laugardag. Madsen hefur verið ákærður fyrir manndráp af gáleysi eftir að sænska blaðakonan Kim Walls, sem var gestur hans í kafbátnum, hvarf sporlaust. 

Madsen var úrskurðaður í 24 daga gæsluvarðhald en lögreglan telur að hann beri ábyrgð á dauða Walls þrátt fyrir að lík hennar hafi ekki fundist og engar vísbendingar séu um hvar hana er að finna. 

Walls fór um borð í bátinn UC3 Nautilus ásamt Madsen á fimmtudagskvöld. Madsen heldur því fram að Walls hafi farið frá borði síðar en lögreglan hefur ekki fundið neinar vísbendingar í þá veru. 

Báturinn sökk í Køge-flóa á föstudag en þá hafði Madsen verið bjargað um borð í vélbát. Hann segir tæknileg vandamál hafa komið upp sem urðu til þess að báturinn sökk. Bátnum var komið á þurrt um helgina. Hvorki tangur né tetur af Walls fannst um borð en rannsókn á bátnum verður fram haldið í dag. 

Lögreglan leitar enn Walls og hóf m.a. í gær leit í Køge-flóa, sunnan Kaupmannahafnar. 

Madsen neitar enn sök en lögmaður hans segir hann hafa ákveðið að kæra ekki gæsluvarðhaldsúrskurðinn.

Frétt Danska ríkissjónvarpsins um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert