Meirihlutinn vill „harða“ útgöngu

AFP

Meirihluti þeirra sem kusu með því að Bretland yrði áfram innan Evrópusambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fram fór í landinu á síðasta ári eru hlynntir því að Bretar endurheimti stjórn eigin landamæra, verði ekki undir dómstól sambandsins settir og greiði lítið eða ekkert til þess þegar af útgöngunni verður.

Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem framkvæmd var af London School of Economics og náði til 20 þúsund manns. Samkvæmt niðurstöðunum vilja 70% Breta að samið verði við Evrópusambandið um útgönguna þannig að Bretar verði ekki lengur hluti af innri markaði þess, hætti að greiða til sambandsins og að lokað verði á frjálsa för fólks til Bretlands frá ríkjum þess.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að könnunin sé þungt lóð á vogarskálarnar fyrir stuðningsmenn útgöngunnar úr Evrópusambandinu en sé að sama skapi áfall fyrir þá sem vilja að Bretland verði áfram innan sambandsins. Samkvæmt niðurstöðunum vilji mikill meirihluti Breta „harða“ útgöngu í stað „mjúkrar“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert