300 ábendingar um hvarf Wall

Kafbáturinn UC3 Nautilus.
Kafbáturinn UC3 Nautilus. AFP

Lögreglan í Kaupmannahöfn hefur fengið tæplega 300 ábendingar um hvarf sænsku blaðakonunnar Kim Wall. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem lögreglan sendi frá sér í hádeginu. 

Í flestum tilvikum er um myndir og myndskeið að ræða sem hafa borist til lögreglunnar undanfarinn sólarhring af kafbátnum sigla út Eyrarsundið á fimmtudag. 

Lögreglan biðlar til almennings um að láta vita ef fólk hefur einhverjar upplýsingar um ferðir kafbátarins og eins upplýsingar um kafbátinn fara niður á dýpi. 

Reynt að kortleggja ferðir bátsins

Upplýst er að kafbáturinn sigldi út fimmtudaginn 10. ágúst um klukkan 19. Næstu klukkutíma sigldi báturinn um Middelgrund. Síðasta myndin sem vitni hafa sent af kafbátnum þar er tekin klukkan 20:30. Eftir það er vitað að kafbáturinn sigldi nærri kaupskipi í kringum miðnætti á fimmtudag. Síðan sást til bátsins í Køge-flóa 11. ágúst um klukkan 10:30.

Í tilkynningunni kemur fram að lögreglan vill ná sambandi við vitni sem geta veitt upplýsingar um ferðir kafbátsins frá klukkan 20:30 á fimmtudagskvöld fram til 10:30 á föstudag.

Peter Madsen, 46 ára gamall danskur frumkvöðull og eigandi kafbátsins, hefur verið ákærður fyrir manndráp af gáleysi en neitar sök. Hann ákvað í gær að kæra ekki 24 daga langt gæsluvarðhald sem hann var úrskurðaður í á laugardag.

Rannsókn tæknideildar dönsku lögreglunnar staðfesti í gær þá kenningu að kafbátnum hefði verið sökkt af ásettu ráði.

Lögregla tilkynnti á blaðamannafundi í gær að hún vildi ná tali af þeim sem hefðu áður siglt með kafbátnum í þeim tilgangi að átta sig á því hvernig boðsferðum Madsen með kafbátnum hefði áður verið háttað.

Nokkrar ábendingar þegar borist

Um klukkan 19 á fimmtudag héldu Madsen og Wall í siglingu frá Refshale-eyju í Kaupmannahöfn. Áætlað var að til hafnar yrði komið sama kvöld. Um klukkan hálf þrjú, aðfaranótt föstudags, barst lögreglu tilkynning frá kærasta Wall um að báturinn hefði ekki skilað sér um kvöldið.

Vitað er að kafbáturinn sigldi út úr höfninni og kringum Drogden-vita, sem er suðaustur af Kaupmannahöfn. Á vef danska fjölmiðilsins BT birtust síðan í gær myndir sem þýskur ferðamaður tók af kafbátnum um klukkustund eftir að siglingin hófst. Einnig birtust myndir frá dönskum hópi ungmenna sem sáu til kafbátsins um svipað leyti. Madsen og Wall eru sögð sjást í turnlúgu hans.

Peter Madsen er 46 ára frumkvöðull. Kim Wall er þrítugur, …
Peter Madsen er 46 ára frumkvöðull. Kim Wall er þrítugur, sænskur blaðamaður.

Um tveimur tímum eftir að tilkynnt var um hvarf blaðamannsins lenti kafbáturinn næstum því í árekstri við flutningaskip á Eyrarsundi, nærri eyjunni Saltholm, og hefur Aftonbladet eftir vitni um borð í skipinu að kafbáturinn hafi verið ljóslaus. Vitnið segir að slíkt sé óvenjulegt á Eyrarsundi, þar sem umferð er jafnan mikil.

Breytti framburði sínum

Danski herinn náði sambandi við Madsen á föstudagsmorgun og bað hann um að koma í land. Madsen sagðist ætla að reyna að sigla bátnum í land og gaf þær skýringar að förin hefði dregist á langinn vegna „tæknilegra örðugleika um borð“. Í land komst báturinn ekki því hann sökk í flóa í Køge, um fimmtíu kílómetra suður af Kaupmannahöfn, skömmu eftir að Madsen fór um borð í vélbát. Á þessum tímapunkti var talið að Madsen og Wall væru bæði um borð í kafbátnum.

Sem fyrr sagði telur lögreglan það nú staðfest að honum hafi verið sökkt af ásettu ráði. Kafbátnum var komið á land á laugardag, en í ljós kom að Kim Wall var ekki í honum.

 Í yfirheyrslu sagði Madsen að hann hefði látið Wall í land við veitingastaðinn Halvandset um klukkan hálf ellefu á fimmtudagskvöldið. Síðan hefur hann breytt framburði sínum og gefið „aðrar skýringar“ að sögn lögreglu.

Wall var leitað á Eyrarsundi í gær, bæði á sjó og úr lofti. Rannsóknir á hafstraumum á svæðinu hafa beint sjónum lögreglunnar að sænskri lögsögu.

Lögregla útilokar ekki að Wall hafi verið flutt til annars lands, til dæmis til Þýskalands. Ekki er heldur útilokað að hún sé í Svíþjóð.

Verjandi Madsen, Betina Hald Engmark, sagði í samtali við Aftonbladet í gær að Madsen væri sleginn vegna málsins og að hann myndi vinna með lögreglunni að lausn þess þannig að hægt væri að ljúka rannsókn sem fyrst.

Þeir vinir Wall sem rætt var við í fjölmiðlum í gær lýstu henni sem orkumikilli og víðförulli. Þeir sögðu það þó mjög ólíklegt að hún hefði sjálf látið sig hverfa. Slíkt gæti hún ekki gert vinum sínum og fjölskyldu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert