Mjallhvítur elgur vekur heimsathygli

Elgurinn er fagurhvítur og nokkuð gæfur.
Elgurinn er fagurhvítur og nokkuð gæfur. Skjáskot/Facebook

Hann sker sig verulega úr þar sem hann gengur um í fagurgrænu grasinu og veður svo af stað út í læk. Mjallhvítur elgur í Värmland í Vestur-Svíþjóð hefur vakið heimsathygli.

Feldur elgsins er hvítur sem og horn hans og klaufir. Nokkur slík dýr er að finna í Svíþjóð en fjöldi þeirra hefur ekki verið kortlagður sérstaklega. Þrátt fyrir þennan óvenjulega lit er elgurinn ekki albínói heldur stafar útlit hans af því að hann getur framleitt melanín (sortuefni) en ekki safnað því upp og geymt. 

Sá sem myndaði elginn, sveitarstjórnarmaðurinn Hans Nilsson í Edas, segist hafa beðið lengi eftir að geta fangað hann á myndband. Tækifærið hafi komið síðasta fimmtudag er elgurinn hvíti birtist skyndilega í vegkanti í nágrenni heimilis hans, segir í frétt Sænska ríkissjónvarpsins um málið. Daginn eftir fór Nilsson aftur á svæðið og þá vopnaður myndavélinni. 

„Ég var svo heppinn að hann birtist beint fyrir framan mig og ég gat eytt tuttugu mínútum með honum. Hann stóð í aðeins fimm metra fjarlægð frá mér,“ segir Nilsson í samtali við sænska sjónvarpið.

Nilsson birti myndskeiðið á Facebook og nú hefur verið horft á það um milljón sinnum. „Ég hef fengið skilaboð frá Frakklandi, Kanada, Rússlandi og Eistlandi,“ segir Nilsson um vinsældir myndskeiðsins.

Nilsson segir að elgurinn sé rólegur og að hann hafi alls ekki verið hræddur við manninn sem stóð rétt hjá með myndavélina. 

Hvíti elgurinn, sem nú er orðinn heimsfrægur, var þekktur á sínum heimaslóðum áður. Íbúarnir segja hann eins og húsdýr. Hann hefur stundum sést í félagi við annan hvítan elg.

Þó að hvítir elgir séu þekktir í náttúrunni þykir þessi einkar fallegur. „Hann er góður og sérstakur,“ segir Tyron Thörblom sem hefur fylgst með elgnum frá því hann var kálfur.

Á vef Sænska ríkissjónvarpsins er að finna grein þar sem spurningum um hvíta elginn er svarað. Þar kemur m.a. fram að hvítir elgir séu ekki friðaðir og þá megi því skjóta eins og hverja aðra elgi á veiðitímabilinu. 

Frávikið sem veldur hvíta litnum er arfgengt en dýrin geta haft það án þess að vera sjálf hvít. Brún kýr getur því eignast hvítan kálf ef báðir foreldrarnir bera genafrávikið í sér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert